135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

efling kennslu í heilbrigðisvísindum í Háskólanum á Akureyri.

117. mál
[21:55]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að segja nokkur orð um þessa tillögu sem ég tel að sé ágætt framfaramál og það er ánægjulegt að sjá að allir hv. þingmenn Norðausturkjördæmis eru flutningsmenn þessarar tillögu. Ég held að sá ágæti hópur hv. þingmanna þekki sennilega betur en nokkur annar hópur í þinginu mikilvægi þess að Háskólinn á Akureyri dafni og eflist og ég fæ ekki betur séð en að þessi tillaga lúti og stefni mjög að því markmiði.

Ég vil líka taka það fram að ég tel að þessi tillaga sé í mjög góðu samræmi við og í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að efla átak í byggðamálum á grundvelli menntamála, samgangna og félagsmála. Ég tel að færð hafi verið hér í umræðunni um þessa ágætu þingsályktunartillögu fram mjög góð rök og mörg góð dæmi um það hversu miklum árangri hægt er að ná í byggðamálum einmitt með slíkum aðferðum. Ég tel að það sé eftirtektarvert og það eru áhugaverðar upplýsingar sem koma fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem lúta að hversu margir þeirra sem stunda háskólanám úti á landi ákveða að setjast síðan að í framhaldinu eða halda áfram að búa öllu heldur úti á landi. Þetta eru ánægjulegar upplýsingar og ættu að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld í þeirri baráttu að koma í veg fyrir að byggð breytist um of eða of hratt eða að það verði einhvers konar byggðahrun í landinu. Það er stefna ríkisstjórnarinnar og það er stefna Sjálfstæðisflokksins að landið verði í sem bestri byggð og ég tel að þessi tillaga sé í mjög góðu samræmi við þá stefnu.