135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:51]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það kom fram hér áðan í máli hæstv. heilbrigðisráðherra að hér hefðu fallið stór orð í hans garð. Það er rétt, það eru stór orð enda hefur hann sjálfur látið stór orð falla í þessu máli og ég stend við það að hann hefur snúist gegn aðilum bæði undir ráðuneyti sínu og almennt í þjóðfélaginu sem fjallað hafa um áfengis- og vímuvarnamál. Hann hefur snúist gegn áliti þeirra á þessu frumvarpi. Ég held að hæstv. ráðherrann ætti sjálfur að kynna sér þau mál frekar en að saka aðra um að hafa ekki gert það. Hér eru full rök fyrir öllu því sem ég sagði áðan.

Hefur hann kannski ekki kynnt sér álit landlæknisembættisins í yfirlýsingu sem kom fram fyrir ekkert mörgum dögum þar sem hann fer yfir frumvarpið og þau mál sem það varðar og endar mál sitt á, með leyfi forseta, að „breytingar á löggjöf um aðgengi og verð á áfengi geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu hér á landi“?

Það er landlæknir sem skrifar undir þetta.

Og hvað segja foreldrar í landinu sem ekki alls fyrir löngu funduðu um þetta mál og reyndar samtök foreldra á Norðurlöndum? Hvað hafa þau að segja um aðgengi að vímuefnum og áfengi? Nákvæmlega það sama og það sem landlæknir hefur fjallað um og undirstrikað, nákvæmlega það sama og hefur margsinnis komið fram hjá Lýðheilsustöð. Ekki bara einu sinni, ekki bara við þetta mál, ekki bara tvisvar eða þrisvar eða fjórum sinnum, heldur í fimmta skiptið núna sem það gefur álit á sambærilegu frumvarpi. Það kemur ekki úr óvæntri átt eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hélt fram áðan, að ég væri að meina að það kæmi úr óvæntri átt frá sjálfum ráðherranum, heldur úr ráðuneytinu. Mér finnst mjög alvarlegt þegar það kemur úr þessu ráðuneyti og að þingmaður sem þó hefur verið þessarar skoðunar í mörg ár og flutt mál með sama hætti eins og hann gerir núna hafi ekki skipt um skoðun eftir að honum hefur þó verið falin (Forseti hringir.) ábyrgð á heilbrigðismálum í landinu.