135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

íslenska táknmálið.

12. mál
[16:34]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál er komið fram. Hér er á ferðinni afar brýnt mál sem þingheimur ætti að einhenda sér í að fara yfir og samþykkja. Ég vil í stuttri ræðu minni draga sérstaklega fram þátt Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur sem hefur lengi barist fyrir málinu og unnið að afskaplega góðri greinargerð. Ég vil líka fagna vinnu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sem tekur upp boltann frá Sigurlín þar sem hún er utan þings. Það er ánægjulegt að flutningsmenn eru úr öllum stjórnmálaflokkum. Það ber vitni um að þingheimur og stjórnmálaflokkar í landinu hafa skilning á málinu og telja mikilvægt að það verði afgreitt af þinginu.

Mig langar að draga fram nokkur atriði sem mér finnst vert að minnast á. Á bak við frumvarpið er afskaplega mikilvæg hugsun. Sem dæmi má nefna 1. gr., þar sem lagt er til að íslenska táknmálið verði fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og að íslenska ríkið skuli hlúa að því og styðja. Þar er einnig talað um að íslenska táknmálið verði jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í millum og óheimilt sé að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir tala.

Einnig er 3. mgr. 1. gr. afar mikilvæg, með leyfi forseta: „Íslenska ríkið skal tryggja fullnægjandi fjárframlög til íslenska táknmálsins ár hvert í samræmi við tilgang laga þessara.“

Það er ekki einungis mikilvægt að táknmálið verði viðurkennt með þeim hætti sem fjallað er um í 1. gr. Við þurfum einnig að tryggja viðunandi þjónustu gagnvart þeim hópi sem í hlut á. Þá er afar mikilvægt að líta á aðrar greinar frumvarpsins, svo sem 5., 6. og 7. gr.

Í 5. gr. kemur fram að notendur íslenska táknmálsins eigi rétt á því að fá upplýsingar sem birtar eru opinberlega og að fræðslu- og afþreyingarefni sem ætlað er almenningi verði þeim aðgengilegt með textun á íslensku eða túlkun á íslenskt táknmál eftir því sem við á.

Í 6. gr. er talað um að allar stofnanir og embætti ríkis og sveitarfélaga skuli útvega táknmálstúlka fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda sem eiga erindi við viðkomandi stofnun eða embætti. Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu ríkis og sveitarfélaga.

Mig langar síðan að draga 7. gr. sérstaklega fram. Þar kemur fram að sérhver notandi íslenska táknmálsins á rétt á að minnsta kosti 20 tíma endurgjaldslausri þjónustu táknmálstúlks mánaðarlega til að sinna persónulegum erindum sem ekki falla undir ákvæði 6. gr. Daufblindir eiga síðan, skv. 1. mgr., rétt á að minnsta kosti tvöföldum tímafjölda og þeir sem nota þjónustu táknmálstúlka munu eiga rétt á auknum tímafjölda samkvæmt þessari grein ef sérstaklega stendur á samkvæmt reglum sem ráðherra setur.

Hér er því verið að boða stórbætta þjónustu við þann hóp sem frumvarpið lýtur að og það er afar mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess prinsipps sem liggur þar á bak við, að við viðurkennum íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.

Eins og hv. 1. flutningsmaður þessa máls, Katrín Júlíusdóttir, benti á skiptir það miklu máli fyrir þennan hóp að við stígum þetta skref í þessari lotu. Það skiptir líka miklu máli að táknmálið verði sýnilegt og það skiptir máli að til staðar sé þekking á táknmálinu. Ég vil, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir gerði einnig, draga fram mjög fróðlega grein Svandísar Svavarsdóttur sem fylgir frumvarpinu. Sú grein er stutt yfirlit með fróðleik um táknmál. Þar er fróðleikur sem kemur fólki kannski á óvart. Þar kemur t.d. fram að heyrnarlaus Bandaríkjamaður á auðveldara með að skilja frönskumælandi einstakling en heyrnarlausan Breta. Þetta er fróðleikur sem ég held að almenningur átti sig kannski ekki á. Einnig er þar talað um þann misskilning að táknmálið sé alþjóðlegt. Greinin stuðlar að því að almenningur átti sig á þeim heimi sem þessir hópar búa við, þeir sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða daufblindir.

Ég veit að sumir leikskólar, og ég þekki það úr leikskóla dætra minna, fara aðeins yfir táknmál og kenna nokkur tákn. Fimm ára dóttir mín er iðin við að kenna mér nokkur tákn. Þetta er afskaplega ánægjulegur hluti af þeirri fræðslu sem á sér stað innan leikskólanna og mun að sjálfsögðu auka meðvitund barna um að til eru hópar í samfélaginu sem hafa skerta heyrn eða eru heyrnarlausir.

Það er engin afsökun fyrir það þing sem nú situr að afgreiða ekki þetta mál, fyrir því er þverpólitískur stuðningur. Við þekkjum málið frá því að Sigurlín Margrét barðist fyrir því á síðasta löggjafarþingi. Ég hvet hv. menntamálanefnd til að vinna hratt og vel. Við skuldum þessum hópi að viðurkenna táknmálið sem þeirra fyrsta tungumál og við skuldum þessum hópi einnig bætta þjónustu. Þessi tvö frumvörp munu tryggja það.