135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að halda sig við íbúðalánin því að það eru svo margir einstaklingar sem hafa tekið þau og búa við að borga af þeim. Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að þegar vextirnir lækkuðu niður í 4,15% var það mikil kjarabót, það er alveg óumdeilt enda var til þess stofnað af þáverandi ríkisstjórn (Gripið fram í.) í þeim tilgangi að það væri kjarabót. (PHB: Nei.) (Gripið fram í.)

Á sama hátt er vaxtahækkunin líka útgjöld, hafi hún verið mikil kjarabót þegar vextirnir lækkuðu er hún líka mikil útgjöld þegar vextirnir hækka. Þegar vextirnir hér á landi eru 2–5 prósentustigum hærri en gerist erlendis eru það mikil útgjöld umfram það sem menn borga í öðrum löndum af sambærilegum skuldum. Um það snýst þessi tillaga, að grípa til aðgerða sem leiða til þess að kjörin hér á landi séu sambærileg við önnur lönd. Það er það sem við eigum að geta gert og það er það sem íslenskir bankar eiga að geta gert, og geta auðvitað gert þar sem þeir starfa í Evrópulöndunum en gera ekki hér gagnvart íslenskum viðskiptavinum sínum. Á því er auðvitað mikill galli og þeir notfæra sér skort á samkeppni og annað slíkt sem gerir það að verkum að þeir geta haft hærri vexti. Það er skortur á löggjöf sem gerir það að verkum að þeir nýta sér aðstæður til þess að taka upp samkeppnishamlandi gjöld til þess að halda viðskiptavinunum föstum við sig, það er of dýrt að flytja sig á milli viðskiptabanka og það er það sem viðskiptaráðherra boðaði hér um daginn, að reyna að lækka þær hindranir sem bankarnir hafa tekið upp og girt í kringum sig með. Það eru auðvitað afar óeðlilegar aðgerðir og rétt að hæstv. viðskiptaráðherra beiti sér fyrir því (Forseti hringir.) að breyta þessu.