135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:45]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leiðinlegt ef það er að verða alsiða hér í þingi þegar framsóknarmenn koma fram með þingmál þá komi þingmenn Samfylkingarinnar upp rétt eins og þeir séu í sandkassaleik. Það er ekkert verið að ræða um viðkomandi málefni. Nei, síður en svo. Það er verið að ræða um hvað Framsóknarflokkurinn gerði og gerði ekki á síðustu tólf árum. Það er ekki nema von að umræðan sé á háu plani þegar hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kemur fram á völlinn með þessum hætti.

Það er einfaldlega þannig að Róm var ekki byggð á einum degi. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þingmanni að endurgreiðslubyrði námslána var stórhækkuð þegar sjálfstæðismenn og kratar voru í ríkisstjórn 1991–1995, stórhækkuð, 7% var endurgreiðslubyrði námslána sem var kjaraskerðing fyrir námsmenn á þeim tíma.

Við framsóknarmenn beittum okkur fyrir því í ágætu ríkisstjórnarsamstarfi þá að lækka þessa endurgreiðslubyrði meðal annars sem hv. þáverandi þingmaður og ráðherra Össur Skarphéðinsson kom á þegar hann var í þeirri ríkisstjórn.

Endurgreiðslubyrði námslána er 3,75% í dag. Þar af leiðandi er hún miklu lægri en þegar Framsóknarflokkurinn kom að ríkisstjórnarborðinu árið 1995. Það er einungis eitt dæmi um hvaða árangri við náðum á þessu tólf ára tímabili.

Hins vegar geta þingmenn haft skoðun á því hvort öðrum málum hefði þurft að flýta hraðar en raun bar vitni og við getum haft mismunandi skoðanir á því. En við stigum mjög mörg framfaraspor í menntamálum á síðasta kjörtímabili og á undangengnum tólf árum sem ég er mjög stoltur af og ég hvet hv. þingmann til þess að horfa fram á veginn og styðja þetta góða mál en ekki fara í sandkassaleik um það hvað betur hefði mátt fara og hvað hefði verið hægt að gera og hvað var ekki gert.