135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:31]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Eins og ég gat um í andsvari mínu við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þá fagna ég því að frumvarp sem mælir fyrir um breytingu á lögum um dómstóla sé komið fram á Alþingi og hafin sé umræða um hvort ástæða sé til að breyta því fyrirkomulagi sem nú ríkir varðandi skipun hæstaréttardómara eða ekki.

Ég hef verið þeirrar skoðunar býsna lengi að fyrirkomulagið sem nú er, og ekki síst sú framkvæmd sem hefur blasað við okkur hvað varðar túlkun á lögunum um dómstóla við skipan hæstaréttardómara, sé óheppileg og að ástæða sé til að taka hana til gagngerrar skoðunar. Þess vegna fagna ég því að þetta frumvarp skuli komið fram og við séum farin að ræða um þessi málefni.

Þegar ég lærði lögfræði þá kenndi minn góði kennari, Sigurður Líndal, mér að Hæstiréttur ætti að vera endir allrar þrætu. Því miður hefur Hæstiréttur kannski frekar verið uppspretta þrætu frekar en hitt síðustu ár, sérstaklega þegar kemur að því að skipa dómara við réttinn, þá helst í tengslum við það þegar Hæstiréttur veitir, samkvæmt lögunum um dómstóla, umsögn um hæfi og hæfni þeirra umsækjenda sem vilja verða dómarar.

Við slíka umsögn hefur Hæstiréttur Íslands, að minnsta kosti hluti þeirra dómara sem þar sitja, túlkað 4. gr. núverandi laga um dómstóla með þeim hætti að rétturinn hafi heimild til að raða dómaraefnunum upp í forgangsröð, eftir því hvaða dómaraefni umsagnaraðilinn telur heppilegust til að hljóta skipun. Það er auðvitað ástæða til að nefna það sérstaklega í athugasemdum, bæði með núverandi lögum og fyrri lögum, að þar er ekkert sagt, hvorki í texta ákvæðisins sjálfs né í athugasemdum með textanum, að Hæstiréttur eigi að raða umsækjendum upp í forgangsröð í umsögn sinni og hvað þá að sú umsögn skipti einhverju máli þegar ráðherra tekur ákvörðun um hvern skipa skuli.

Því miður hefur umræðan um skipan hæstaréttardómara ekki verið sérstaklega jákvæð á síðustu árum. Ég fagna því að menn skuli hafa hreyft við þessu máli á Alþingi til þess að opna þessa umræðu þannig að við getum velt því fyrir okkur hvort rök séu fyrir og ástæða til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi.

Um þetta hefur verið fjallað í opinberri umræðu, bæði í ræðu og riti um nokkurt skeið. Ég má til með að nefna að það er ekki lengra síðan en í júlí árið 2006 að í tímariti lögfræðinga, í 2. hefti, birtist grein eftir einn hæstaréttardómara, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem ber yfirskriftina: Skipun hæstaréttardómara. Er breytinga þörf? Þar fer dómarinn yfir löggjöfina eins og hún er núna og lýsir skoðunum sínum á því hvaða breytingar hann telji nauðsynlegt að gera á núverandi fyrirkomulagi laganna um dómstóla vegna skipunar hæstaréttardómara.

Morgunblaðið hefur líka vikið að þessu álitamáli með málefnalegum hætti, að ég tel, og gerði það síðast í Reykjavíkurbréfi laugardaginn 11. ágúst. Í því Reykjavíkurbréfi er í upphafi farið yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni og það fyrirkomulag sem viðgengst í Bandaríkjunum rakið. Síðan veltir höfundur Reykjavíkurbréfs því fyrir sér hvort Hæstiréttur eigi að vera umsagnaraðili við val á nýjum dómurum við réttinn. Mér finnst höfundur Reykjavíkurbréfs komast ágætlega að orði þegar hann fer yfir þetta mál og ég ætla, með leyfi forseta, að fara yfir það sem þar kemur fram. Ég ætla ekki að lesa upp allt Reykjavíkurbréfið en les þann hluta af því sem ég tel skipta máli í þessu samhengi, með leyfi forseta:

„Hér á Íslandi hefur það tíðkast í áratugi að Hæstiréttur Íslands er umsagnaraðili um umsækjendur um starf dómara við Hæstarétt. Nú byggist sá umsagnarréttur á lögum frá árinu 1998 en fram að þeim tíma var það ákvæði í lögum frá árinu 1973. Morgunblaðið hefur ekki kannað, hvort þetta lagaákvæði er í raun eldra. Munurinn á lögunum frá 1973 og 1998 að þessu leyti er sá, að í hinum eldri lögum var ákvæðið á þann veg að dómstóllinn skyldi veita umsögn um dómaraefnin áður en embættið væri veitt en í hinum nýju lögum er gert ráð fyrir að Hæstiréttur fjalli um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna starfinu.

Þetta nýja lagaákvæði hafa dómarar við Hæstarétt túlkað á þann veg, að þeir hafi rétt til að raða umsækjendum upp, þ.e. að leggja mat á það hver sé hæfari en annar. Það stendur ekki í lögunum að þeir hafi þann rétt en þeir hafa túlkað orðalag laganna á þann veg að þeir hafi slíkan rétt.

Þótt þetta atriði skipti auðvitað miklu máli er þó meiri spurning hvort það sé yfirleitt við hæfi að dómarar við Hæstarétt hafi slíkan umsagnarrétt og hvort sá umsagnaraðili ætti ekki að vera allt annar en þeir dómarar sem sitja fyrir í réttinum.

Ákvæðið eins og það var í lögunum frá 1973 hlýtur að teljast meira en álitamál í því samfélagi, sem við búum í í upphafi nýrrar aldar, sem er gjörólíkt því samfélagi, sem hér var til fyrir 34 árum. Viðhorf fólks til margra mála hafa gjörbreyst og þar á meðal til opinberra stofnana og þeirra sem þar gegna lykilstörfum. Í þá daga var jafnvel litið svo á að dómarar við Hæstarétt Íslands væru óskeikulir en engum dettur í hug að hafa slíka afstöðu til þeirra nú.

Eru yfirleitt nokkur rök fyrir því að dómarar við Hæstarétt Íslands hafi rétt til umsagnar um hugsanlega nýja dómara við réttinn? Hver eru þau rök? Ef horft er til hinna nýju laga frá árinu 1998 og túlkunar Hæstaréttar á þeim lagaákvæðum verður þessi spurning enn áleitnari vegna þess að með túlkun meiri hluta dómaranna á þeim lagaákvæðum er augljóst að dómurinn er að gera tilkall til hlutdeildar í skipunarvaldi ráðherra. Um leið og dómurinn segir að einn tiltekinn umsækjandi sé hæfari en aðrir er ljóst að ráðherrann sem hefur skipunarvaldið er kominn í erfiða stöðu. Ætlar hann virkilega að ganga gegn vilja Hæstaréttar er spurt. En samkvæmt hvaða íslenskum lögum hefur Hæstiréttur eignast hlutdeild í skipunarvaldi ráðherra? Eru dómararnir ekki að brjóta íslensk lög með því að gera tilkall til slíkrar hlutdeildar? Hvað mundi gerast ef dómsmálaráðherra endursendi slíka umsögn dómara við Hæstarétt með þeim ummælum að þeir hefðu ekki lagaheimild til að kveða upp úr um að einn umsækjandi væri hæfari en annar? Hver ætti að úrskurða í þeirri deilu? Hæstiréttur sem væri samansettur af öðrum dómurum vegna vanhæfi hinna skipuðu dómara? En hvaða líkur eru á að nýir dómarar mundu ganga gegn sjónarmiðum starfsbræðra sinna? Það eru ekki meiri líkur á því en að læknir felli áfellisdóm yfir öðrum lækni, svo að gripið sé til samlíkingar sem er inngróin í sálarlíf almennings. Líklegra er að ráðherra mundi beita sér fyrir lagabreytingu þar sem orðalagið um umsagnarrétt Hæstaréttar væri svo skýrt að ekki væri hægt að draga það í efa.

En eftir stendur spurningin um það hvort Hæstiréttur eigi yfirleitt að hafa slíkan umsagnarrétt eða hvort það lagaákvæði sé úrelt í þjóðfélagi samtímans. Morgunblaðið hallast að því að svo sé. Það er erfitt að finna nokkur rök fyrir því að Hæstiréttur hafi þennan umsagnarrétt. En rökin gegn þessu ákvæði blasa við. Hvaða vit er í því að einhver hópur manna geti ráðið miklu um það hvaða nýr aðili kemur inn í þann hóp? Býður það ekki heim hinum gamalkunna íslenska klíkuskap, persónulegum fordómum og þeirri spillingu, að þeir sem fyrir eru í réttinum hvetji kunningja sína til að sækja um og að þeir muni fá góða meðferð í umsögn Hæstaréttar? Það er augljóst að þegar hér er komið sögu á að afnema úr lögum ákvæðið um umsagnarrétt Hæstaréttar um umsækjendur en taka upp annað fyrirkomulag. En jafnaugljóst er, þegar um svo mikilvæg störf er að ræða, að dómsmálaráðherra, hver sem hann er hverju sinni, verður að búa við ákveðið aðhald þannig að hann geti ekki farið að geðþótta sínum einum við skipan dómara í Hæstarétt.

Í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skrifaði í Tímarit lögfræðinga í júlí 2006 fjallaði hann um þessi mál og sagði m.a. í lok greinarinnar: „Til þess að fá fram vandað málefnalegt mat á umsækjendum tel ég hugsanlegt að koma mætti á fót umsagnarnefnd eftir tilnefningum þar sem þess yrði gætt að hver nefndarmaður sæti ekki of lengi. Við ættum samt að muna að rangindi, kunningjagæska og önnur ómálefnaleg sjónarmið eru jafnvel líklegri til að verða til í nefndum svonefndra fagmanna sem enga ábyrgð bera á ákvörðunum sínum heldur en hjá þeim sem ákvörðun á að taka og bera ábyrgð á henni.“ Hverjir ættu að tilnefna fulltrúa í slíka umsagnarnefnd? Lögmannafélagið? Dómarafélagið? Lagadeildir háskólanna? Yrði þessi umsagnarnefnd betur starfi sínum vaxin en t.d. dómnefndir í sumum deildum Háskóla Íslands, sem í raun eru yfirvarp fyrir klíkuskap og það sem Jón Steinar kallar kunningjagæsku? Morgunblaðinu þykir þessi hugmynd hæstaréttardómarans, sem að öðru leyti hefur skynsamlega afstöðu til þeirra mála sem hér eru til umræðu, ekki hyggileg.

Stóra spurningin hlýtur að vera sú hvort Alþingi sjálft eigi að koma hér við sögu eða sú þingnefnd sem fjallar um málefni dómstólanna.

Bandaríska fyrirkomulagið, þar sem tilnefndur dómari verður að svara spurningum þingnefndar, er að mörgu leyti æskilegt.

Á Alþingi Íslendinga sitja kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Eitt af þeirra hlutverkum er að veita framkvæmdarvaldinu aðhald enda sækir framkvæmdarvaldið umboð sitt til Alþingis. Í þessu tilviki er um það að tefla að framkvæmdarvaldið, í þessu tilviki dómsmálaráðherra, fái aðhald við skipan manna í æðsta dómstól landsins. Í okkar kerfi yrði tæpast um það að ræða, að dómsmálaráðherra skipaði einn umsækjanda, sem síðan yrði að fá staðfestingu þingnefndar. Líklegra er að umsækjendur allir mundu koma fyrir þingnefnd, sem síðan veitti umsögn um þá. Með því fyrirkomulagi er umsagnarhefðin til staðar en það eru ekki þeir sem sjálfir eiga beinna hagsmuna að gæta sem hafa umsagnarréttinn.

Ókosturinn við þetta kerfi er hins vegar sá, að það er hugsanlegt að meiri pólitík kæmist í spilið en ella. En á móti kemur að það er meira en hæpið að ráðherra kæmist upp með beina misnotkun á skipunarvaldi sínu. Það er t.d. erfitt að sjá fyrir sér að fulltrúar núverandi stjórnarflokka í viðkomandi þingnefnd mundu ná saman um einhverja þá umsögn sem mundi auðvelda ráðherra að fara að geðþótta sínum.“

Í lokin á þessu Reykjavíkurbréfi segir höfundur þess, með leyfi forseta:

„Það er engin ein leið sem er augljóslega besta leiðin í þessum efnum en það er nokkuð ljóst að núverandi kerfi verður að breyta. Það gengur ekki lengur upp og Hæstiréttur sjálfur á sennilega mestan þátt í að opna augu manna fyrir því.

Það gengur einfaldlega ekki að þeir dómarar sem fyrir eru hafi mikið um það að segja hver tekur við af þeim, í þeirra hópi, sem er að láta af störfum. Það má segja að slíkt fyrirkomulagi tryggi ákveðna einsleitni í réttinum en er það æskilegt fyrir æðsta dómstól landsins? Við munum aldrei finna upp kerfi sem allir verða sáttir við. Við munum aldrei finna upp kerfi sem útilokar að deilur verði um skipan hæstaréttardómara. En við hljótum að leita að kerfi sem er heilbrigðara en það sem nú er til staðar.“

Ég ætla ekki að lesa meira, a.m.k. í þessari ræðu, upp úr þessu Reykjavíkurbréfi. Sjálfur hefði ég orðað hlutina aðeins öðruvísi en höfundur Reykjavíkurbréfsins en ég verð þó að segja að í því varpar höfundurinn fram ýmsum þeim sjónarmiðum sem hafa verið uppi varðandi skipun hæstaréttardómara. Ég er sammála því að það fyrirkomulag sem nú viðgengst varðandi skipun hæstaréttardómara sé óheppilegt og því verði að breyta. Þess vegna fagna ég því að þetta frumvarp sé komið fram.

Ég hef hins vegar efasemdir um að sú leið sem hér er farin sé sú rétta. Ég er þeirrar skoðunar að eigi ráðherra yfir höfuð að hafa eitthvert hlutverk við skipan hæstaréttardómara þá eigi það hlutverk að vera í höndum dómsmálaráðherra. Ég er líka þeirrar skoðunar að eigi Hæstiréttur að hafa heimildir til að senda frá sér umsagnir um hæfi og hæfni dómaraefna þá eigi að taka skýrt fram hvort dómstóllinn eða dómararnir við réttinn eigi að raða mönnum og dómaraefnunum upp í forgangsröð eða ekki. Mín skoðun er sú að það eigi þeir ekki að gera. Raunar tel ég að dómarar við Hæstarétt eigi yfir höfuð ekki að veita slíka umsögn.

Ég hef líka ákveðnar efasemdir um það að Alþingi eigi að koma að þessum málum. Ég tel að þegar við tökum málið til umfjöllunar og skoðunar í allsherjarnefnd þá ættum við nefndarmenn að kanna hvort annað fyrirkomulag komi til greina, t.d. hvort skipuð verði nefnd þar sem sæti eiga fulltrúar frá Lögfræðingafélagi, Dómarafélagi, frá lagadeildum háskólanna og eflaust annarra aðila sem mundu þá veita umsagnir. Það gæti orðið til að tryggja fjölbreytni og koma í veg fyrir að kunningsskapur hafi áhrif, eins og höfundur Reykjavíkurbréfsins víkur að. Það fyrirkomulag gæti verið með þeim hætti að hver og einn nefndarmaður sitji ekki nema tiltekinn tíma í slíkri nefnd, t.d. þrjú til fjögur ár, og komi ekki að umsögnum um fleiri en eitt eða tvö dómaraefni.

Þetta eru álitamál sem mér finnst ástæða til að víkja að í þessari umræðu. Ég held að ég og flutningsmenn frumvarpsins séum sammála um að núverandi kerfi þurfi að breyta. Ég er þó ekki viss um að sú leið eða sú útfærsla sem fram kemur í þessu frumvarpi sé endilega sú eina rétta enda held ég að slík leið sé ekki til.

Ég vonast til þess að þeir sem koma munu að umfjöllun um þetta frumvarp og þessi mál nálgist það með opnum huga og verði opnir fyrir því að skoða allar mögulegar leiðir í þessu sambandi vegna þess að þetta er afar mikilvægt mál. Það skiptir íslensku þjóðina miklu að það sé friður um Hæstarétt Íslands, friður um það með hvaða hætti dómarar við þann dómstól eru skipaðir og slík skipun á alltaf að vera hafin yfir alla gagnrýni.