135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:45]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég efa það ekki að það fólk sem starfar að þessu er í því af heilindum, ég efa það ekki. Ég var eingöngu að benda á að komið gætu upp hagsmunir sem eru annars eðlis. Ég var eingöngu að benda á það.

En tökum sem dæmi þá sem vinna t.d. að áfengisvörnum og ég held að flestir sem að því vinna geri það af heilindum. Tækist hins vegar að vinna bug á áfengissýki þá yrði það fólk atvinnulaust, það er bara þannig. Það er búið að byggja upp mikið kerfi í áfengisvörnum og það er búið að byggja upp mikið kerfi í jafnréttismálum og það næst því miður í báðum tilfellum afskaplega lítill árangur, því miður er launamismunurinn enn þá mikill. Ég hef aldrei efast um og aldrei sagt að hann sé ekki til staðar. Það er launamunur á milli kynja. Ég tók það sérstaklega fram og ég hef aldrei sagt að það væri í lagi. Ég var bara að benda á að það fólk sem við þetta starfar getur lent í þeirri aðstöðu að það tapi á því að ná markmiðum sínum. En auðvitað geri ég ráð fyrir að flestir mundu halda áfram að vinna af heilindum að markmiðum sínum.

En varðandi úrlausnir þá er úrlausn mín er ekki bara „af því bara“ og ekki eingöngu frá mér komin. Þetta hefur lengi verið til umræðu, að koma á slíkri vottun. Ég tel að það sé miklu betri lausn og tel að menn ættu að ræða það nákvæmlega eins og hvað annað fremur en koma með boð og bönn og refsa og refsa.