135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:21]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gat þess að innan ráðuneytanna færi nú fram ráðning án auglýsingar. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar hann flutti þá ræðu að þegar lögum um Stjórnarráð var breytt á sumarþingi var laumað inn ákvæði um að ráða mætti í stöður án auglýsingar. Þetta var gert án samráðs við stéttarfélög BSRB eða BHM, án nokkurs samráðs, og þetta ákvæði var algerlega óviðkomandi stjórnarráðsbreytingunum. Sögðu sumir að það hefði verið draumaákvæði Sjálfstæðisflokksins að koma þessu að, hann hefði lengi beðið eftir því. Það kom mér á óvart að Samfylkingin skyldi leggja því lið vegna þess að við bentum á það í umræðunum, og BSRB og BHM bentu á það, að ógegnsæi í ráðningum og leynd væri gróðrastía geðþótta og þröskuldur á vegi kvenna, eða réttara sagt lóðréttur hamraveggur, til starfsframa innan ráðuneytanna.

Ég spyr hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvort það kunni að vera að við séum, þegar hann nefnir þessi dæmi, að upplifa afleiðingar þessa óheillalagaákvæðis sem samþykkt var á sumarþingi í júní. Ég hygg líka í beinu framhaldi af þessu að jafnréttislagafrumvarpið ætti að taka af skarið um að auglýsa skuli allar stöður, alla vega allar opinberar stöður hjá ríki og sveitarfélögum.