135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Neytendastofa, sem fylgist með þessum málum, gerir engar athugasemdir í því minnisblaði sem hún hefur sent frá sér varðandi atvinnuhúsnæðið. Þar er rætt um það hvers konar starfsemi eigi sér stað á viðkomandi svæðum og samkvæmt upplýsingum okkar hlýtur maður að treysta því að ekki sé verið að brjóta lög með einhverjum hætti. Við vitum að bráðabirgðalögin höfðu mjög afmarkað og skilyrt gildissvið. Þau náðu einungis til íbúðar- og skólasvæðis, ekki til allra fasteigna á svæðinu eins og þingmenn vita.

En svo virðist sem Neytendastofa fylgist vel með öðrum fasteignum og samkvæmt því minnisblaði sem hún hefur sent okkur kemur fram að málið sé í góðum farvegi. Ég get því ekki annað en fullyrt, nema aðrar upplýsingar komi fram, að farið sé eftir almennum lögum og reglugerðum þegar kemur að atvinnuhúsnæði.