135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:55]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt óuppgert á Suðurnesjum varðandi brottför hersins. Það er ekki bara rafmagnið og frágangur á rafmagni í íbúðarbyggðinni þar. Það er mengun á varnarsvæðinu. Það eru jafnvel starfslokasamningar starfsmanna sem voru yfirmenn í vinnu hjá hernum. Þeir fengu þriggja mánaða uppsagnarfrest eins og gengur og gerist, en þeir lentu í því hlutskipti að vera með ákveðin ákvæði í starfssamningum sínum um að þeir mættu ekki vinna hjá verktökum og öðrum fyrirtækjum á eftir í svo og svo langan tíma. Það er mál sem þarf að taka sérstaklega á.

Hvað varðar iðnaðar- og atvinnuhúsnæði á vallarsvæðinu, eða því svæði sem var innan varnarmálagirðingar og er að hluta til þar enn þá — og jafnvel inni á flugvallarhættusvæði eða svæði sem er til að tryggja öryggi flugsins — þá veit ég ekki betur en sumt af því húsnæði sem hv. þm. Gunnar Svavarsson spurði um sé komið í starfsemi. Er ég þá að tala um iðnaðar- og atvinnuhúsnæði ýmiss konar.

En Gunnar sagðist þurfa að spyrja sjálfan sig statt og stöðugt áðan í ræðu sinni. Hann er í stjórn Hitaveitu Suðurnesja og ætti að vita allt um heitt vatn og kalt og um rafmagn á Keflavíkurflugvelli eða á varnarsvæðinu.