135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:00]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það þarf vart að taka fram að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum almennt ánægðir með þá breytingu á starfsemi sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli við brottför hersins og þótt fyrr hefði verið. En það þýðir ekki að maður vilji samþykkja og standa að hvaða ósóma sem er þegar kemur að umfjöllun um málefni svæðisins.

Ég ætla fyrst, virðulegur forseti, vegna frumvarpsins sem liggur fyrir og bráðabirgðalaganna að segja að mér finnst textinn í bráðabirgðalögunum sjálfum undarlegur. Nú skilst mér af þingreyndum mönnum að það sé alvanalegt að inngangur að texta bráðabirgðalaga sé með þeim hætti sem hér er. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu.“

Nú er mér kunnugt um að þetta er hinn almenni inngangur að því þegar forseti staðfestir lög frá Alþingi enda hefur Alþingi þá fallist á lögin. En reyndir þingmenn segja mér að þetta sé einnig vanalegur texti við bráðabirgðalög. Ég hlýt að vekja athygli á því að þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Það er beinlínis ósatt þegar segir í texta að Alþingi hafi fallist á lögin því að Alþingi hefur ekki verið spurt. Mér finnst nú fullkomið tilefni til þess að menn taki það til athugunar að breyta þessum inngangsorðum í bráðabirgðalögum sem vonandi verða ekki mörg í framtíðinni. Almennt séð finnst mér ekki að í texta sem þessum eigi beinlínis að fara með rangt mál. En allt um það.

Aðeins um frumvarpið að öðru leyti. Eins og komið hefur fram hér er gert ráð fyrir því og gerð tillaga um að Alþingi staðfesti bráðabirgðalögin sem gefin voru út 6. júlí í sumar. Mér finnst margt athyglisvert hafa komið fram í umræðunni til þessa, til að mynda veltir hv. 2. þm. Suðvesturkjördæmis, Gunnar Svavarsson, því fyrir sér hvort nauðsynlegt hafi verið að setja lög, hvort dugað hefði að breyta reglugerð. Ég hef tilhneigingu til að taka orð hv. þingmanns nokkuð trúanleg í þessu samhengi því að ég veit að hann hefur býsna góða þekkingu á þeim málaflokki sem hér er verið að fjalla um, raforkumálunum. Mér finnst því full ástæða til að skoða það sérstaklega.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði í andsvari við flokksbróður sinn að það hefði verið niðurstaða Neytendastofu að breyta þyrfti lögum af því að sá útbúnaður sem væri á varnarsvæðinu væri ekki í samræmi við íslensk lög og því ekki nægilegt að gefa út reglugerð. En það er greinilegt að ekki eru allir á einu máli hvað það varðar, að minnsta kosti virðist mega deila um það. Það gefur sérstakt tilefni til að velta fyrir sér hinni brýnu nauðsyn á að gefa út bráðabirgðalög, ef jafnvel eru áhöld um að lagabreytingu hafi yfirleitt þurft, að hugsanlega hefði verið nægilegt að gefa út reglugerð.

Það er að mínu viti tilefni til að spyrja sig að því hvort ekki sé nauðsynlegt að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og nefndin skoði þessi álitamál frekar.

Einnig fóru fram athyglisverð skoðanaskipti á milli flokksbræðranna, hv. þingmanna Ágústs Ólafs Ágústssonar og Gunnars Svavarssonar, fulltrúa Samfylkingar, S-hópsins hér á þingi, ef svo mætti að orði komast, um gildissvið þessara laga. Í lögunum er gert ráð fyrir því að þau taki til þess sem heitir íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Nú er mér að vísu ekki alveg ljóst hvað íbúðar- og skólasvæði eru í þessu samhengi, hvort þar er t.d. vísað til skilgreiningar í skipulagsreglugerð en alla vega voru þetta athyglisverð skoðanaskipti og spurningar sem hér vöknuðu um atvinnu- og þjónustuhúsnæði, hvort það félli undir þessi lög. Mér fannst á andsvörum hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að það bæri að skilja það svo að atvinnusvæðin væru undanskilin þannig að óheimilt væri að taka þau í notkun nema þau uppfylltu gildandi lög að þessu leyti, burt séð frá því sem bráðabirgðalögin segja til um.

Í mínum huga er það samt sem áður mjög mikið prinsippmál að bera fram frumvarp eða gefa út bráðabirgðalög og ætlast svo til að Alþingi samþykki þau. Ég er sammála því sem segir í nefndaráliti meiri hlutans að fara eigi mjög gætilega með heimild 28. gr. stjórnarskrárinnar til setningar bráðabirgðalaga. Meiri hlutinn er í raun að segja að mjög ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi, mjög brýn nauðsyn. Að vísu varði hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson afstöðu meiri hlutans með tilvitnunum í lögspekinga þar sem m.a. er talað um að löggjafinn eða framkvæmdarvaldið hafi rúmar heimildir til útgáfu bráðabirgðalaga. Málsvörnin gekk öll út á það að framkvæmdarvaldið hefði rúmar heimildir. Engu að síður stendur hann hér að nefndaráliti sem undirstrikar að menn eigi að fara mjög gætilega, væntanlega að framkvæmdarvaldið eigi að skilgreina þessar heimildir eins þröngt og unnt er. Það vekur því athygli að í framsöguræðu sinni með málinu segir hæstv. viðskiptaráðherra, með leyfi forseta:

„Tilefnið var ef til vill ekki nógu brýnt til þess að kalla saman Alþingi.“

Í texta bráðabirgðalaganna segir hins vegar að brýna nauðsyn beri til að gefa út bráðabirgðalög. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur farið til Bessastaða og greint forseta frá því að brýnt tilefni væri til að gefa út þessi bráðabirgðalög en hér á Alþingi segir sami hæstv. viðskiptaráðherra að tilefnið hafi eiginlega ekki verið nógu brýnt. Mér finnst áhyggjuefni þegar hæstv. ráðherra er kominn í mótsögn við sjálfan sig hvað þetta snertir. Tilefnið var ekki nógu brýnt til að kalla saman Alþingi, sem er löggjafarvald, en það var hins vegar nógu brýnt til að gefa út bráðabirgðalög.

Það hefur verið farið yfir það ítarlega hér að tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir var nægilegt. Stjórnvöld höfðu marga mánuði til að ráða bót á þessu eða einkum og sér í lagi þeir aðilar sem hlut eiga að máli og fóru fram á setningu bráðabirgðalaganna. Þeir höfðu nægan tíma. Það hefði verið eðlilegt af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra að óska eftir því að Alþingi kæmi saman til fundar í júlí til að setja lög um þetta efni ef það var talið nauðsynlegt. Það er nefnilega þannig að menn eiga ekki að setja bráðabirgðalög nema tilefnið sé svo brýnt að það þoli ekki einu sinni þá töf sem af því mundi leiða að kalla saman Alþingi, þá daga sem það mundi taka að kalla saman Alþingi svo að það gæti tekið við meðferð málsins. Þetta mál hefði þolað þá bið, að það tæki þrjá til fjóra daga að koma Alþingi saman til að ljúka meðferð þess. Í mínum huga er ljóst að ekki bar brýna nauðsyn til að setja bráðabirgðalög. Menn geta auðvitað haft aðra skoðun á því hvort nauðsynlegt hafi verið að setja um þetta efni sérstök lög en það var þá tilefni til að kalla saman Alþingi.

Hér hefur komið fram að búið er að breyta raflögnum í 94% af íbúðarhúsnæðinu sem í hlut á. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að frumvarpið verði látið liggja, að það dagi uppi og fái ekki afgreiðslu. Menn geta þá klárað það sem upp á vantar í þessum fyrsta áfanga og síðan fái málið einfaldlega þinglega meðferð hvað varðar annan áfanga og hugsanlega síðari áfanga. Til þess er nægur tími.

Það sem mér finnst kannski sorglegast í þessu er að það skuli vera Samfylkingin sem ber þetta mál fram með þessum hætti, tekur upp alla ósiði í stjórnsýslunni sem þessi sami flokkur hefur til þessa gagnrýnt harðlega. Ég tel að Samfylkingin hefði átt að hafa dug í sér til að óska eftir því að þing kæmi saman. Það er væntanlega sá málflutningur sem Samfylkingin hefur til þessa haft uppi við slíkar aðstæður.

Í mínum huga er þessi meðferð á bráðabirgðalagavaldinu stjórnskipulegur subbuskapur og ekkert annað. Það bar augljóslega enga nauðsyn til að setja bráðabirgðalög í þessu máli. Það var enginn vandi að kalla þingið saman og leggja málið fyrir og fá efnislega umfjöllun. Það er heldur ekki við hæfi að viðskiptaráðherra, eða hvaða ráðherra sem er, rjúki upp til handa og fóta þegar einhverjir aðilar utan úr bæ koma og segja að kippa verði öllu í liðinn af því að sleifarlagið hafi verið svo mikið af þeirra hálfu marga mánuði þar á undan. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt að menn hefðu þá tekið þann tíma sem til þurfti til að ræða þetta. Ég er sannfærður um að alþingismenn hefðu glaðir komið saman í júlímánuði til að fjalla um þetta brýna hagsmunamál, þetta þjóðþrifamál sem var svo mikilvægt að það mátti ekki bíða, það mátti ekki taka örfáa daga í að fjalla um það. Þingmenn hefðu með ánægju komið saman til þess að fjalla um það.

Virðulegur forseti. Mín afstaða er þessi: Þetta mál er ekki svo brýnt og það er þannig statt þegar hér er komið sögu að það er ekkert að því að Alþingi láti það liggja, láti það daga uppi, það verði ekki að lögum og menn taki svo eðlilega þinglega umfjöllun varðandi síðari áfanga málsins. Ég tel einnig að hér hafi komið fram upplýsingar, m.a. frá hv. þm. Gunnari Svavarssyni og fleirum, um að eðlilegt sé að málið gangi aftur til nefndarinnar sem taki það til frekari skoðunar.