135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki innanbúðarmaður í Samfylkingunni og veit ekki hvaða straumar eða rafstraumar liggja á milli þeirra ágætu þingmanna sem hafa verið á öndverðu máli í þessari umræðu. (ÁÓÁ: Þú varst í flokknum.) Nei, það hef ég aldrei verið og er ágætt fyrir þingmanninn að fá að vita það héðan úr þessum ræðustóli. Hins vegar finnst mér hv. þm. Gunnar Svavarsson vera hógvær og gera heldur lítið úr þekkingu sinni og kunnáttu á þessu sviði sem afskaplega ólíkt honum eins og ég þekki hann til margra ára.

Þetta var ekkert aðalatriði í málflutningi mínum hér, heldur hitt að ég tel að það skorti öll rök fyrir því að sett séu bráðabirgðalög um þetta efni og gagnrýni það og átel flokk þessara ágætu þingmanna, Samfylkinguna, fyrir að standa að því í ljósi þeirrar afstöðu sem sá ágæti flokkur hefur haft í svipuðum málum til þessa.