135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

efling rafrænnar sjúkraskrár.

29. mál
[19:16]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna örfá atriði í tengslum við þessa þingsályktunartillögu. Að sjálfsögðu skiptir rafræn sjúkraskrá máli ef hún skapar skilvirkari og öruggari heilbrigðisþjónustu. Mér skilst að talsvert þurfi að bæta tæknilegan grunn til að þetta sé mögulegt, þó að ég hafi ekki mikla sérþekkingu á þeim málum.

Ég tek undir með hv. þm. Dögg Pálsdóttur sem sagði að ekki hafi mikið verið rætt um lagalegan ramma slíkrar sjúkraskrár. Ég velti upp tveimur lykilspurningum í þessu sambandi: Hver á að eiga sjúkraskrána? Hver á að hafa aðgang að henni? Mér skilst að þessi mál séu nú afar umdeild meðal lækna og heilbrigðisstarfsmanna í Evrópu. Á hið opinbera að eiga sjúkraskrána eða ef til vill sjúklingarnir sjálfir? Í Frakklandi hafa sjúklingar aðgang að eigin sjúkraskrá og geta eytt úr henni upplýsingum um sjálfa sig. Læknar berjast nú fyrir því að þeir fái að merkja eyðurnar sérstaklega inn í sjúkraskrár en þessi mál voru rædd nýlega á Evrópuþingi lækna að sögn formanns Læknafélagsins.

Eiga vissir flokkar sjúkdóma ekki heima í sjúkraskrá sem almennt er aðgengileg? Sumir málaflokkar eru þar viðkvæmari en aðrir. Hver á að hafa aðgang að sjúkraskránni og hver á að veita hann? Er það læknir eða sjúklingur? Við vitum að ásókn í heilsufarsupplýsingar hefur aukist og nægir þar að nefna tryggingafélög, atvinnurekendur eða jafnvel hið opinbera. Á hið opinbera að hafa aðgang að sjúkraskrám einstaklinga?

Það er mikilvægt að málið sé rætt ítarlega í þeirri nefnd sem fjalla mun um rafræna sjúkraskrá þó að ég fagni þessari tillögu. Það skiptir að sjálfsögðu máli að rafræn sjúkraskrá sé virk til að upplýsingar um sjúklinga liggi fyrir. Við þekkjum dæmi úr heilbrigðisþjónustunni um mistök sem verða vegna þess að upplýsingar eru ekki fyrir hendi. Ég get því tekið undir margt sem fram kemur í tillögunni en jafnframt vil ég minna á að ræða þarf um lagalegan ramma málsins innan heilbrigðisnefndar og í þingsal. Heilsufar fólks er viðkvæmt efni og mikilvægt er að með það sé farið af mikilli nærgætni. Þetta er eitt af mikilvægustu málunum hvað varðar persónuvernd og einstaklingsrétt. Það er mjög gott að fá þessi sjónarmið í umræðuna sem hér fer fram.