135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:26]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um að lækka skatta og það er mjög ánægjulegt. Ég þakka hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur fyrir að leggja þetta frumvarp fram sem sýnir að enn þá blása ferskir vindar hjá ungu fólki á Íslandi.

Það er furðulegt að setja lágmark á útsvar sveitarfélaga því að það er atlaga að sjálfsforræði þeirra. En það má líka ræða hvort það sé eðlilegt að hafa hámark á útsvarinu þó að það sé náttúrlega miklu alvarlegri umræða.

Ég vil benda á að stærsta sveitarfélag landsins tók ákvörðun um það í gær eða fyrradag, þ.e. Orkuveitan, þessi fræga, að taka þátt í að leggja ljósleiðara til Evrópu og lagði þar í litlar 500 millj., þ.e. fimmþúsundkall á hvern einasta Reykvíking, í samkeppni við einkaaðila sem ætlar líka að leggja svona streng.

Það mætti eflaust heldur lækka útsvarið í Reykjavík og fela Reykvíkingum að ráðstafa sínum peningum sjálfir en að láta ráðstafa þeim fyrir þá. Þetta gengur út á það hvort opinberir aðilar eigi að fara ofan í vasana okkar skattborgara eða ekki. Ég er hlynntur því að við fáum að eyða peningunum okkar sjálf en ekki Reykjavíkurborg í alls konar svona ævintýri.