135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:42]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi um breytingu á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Ég átti reyndar jafnvel von á stjórnarfrumvarpi í ljósi þess að sérstaklega er rætt um þessi mál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að eftirlaunakjör þingmanna og ráðherra skuli endurskoðuð og þau færð til samræmis við kjör almennings. Þess vegna vekur það athygli að hér eru fimm flutningsmenn úr öðrum stjórnarflokknum en ekki hinum. Það væri áhugavert að vita hvort fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hins stjórnarflokksins, séu ekki sammála frumvarpinu. Við fögnum hins vegar þessu framkomna máli og erum svo sannarlega tilbúin til að taka þátt í endurskoðun á þessum lögum.

Það er alveg rétt sem hér var nefnt að þegar þessi lög voru sett var almenningi misboðið út af þeim sérkjörum sem voru sköpuð fyrir þingmenn og ekki síst ráðherra. Ég tel fullkomlega eðlilegt að þau verði færð til samræmis við lífeyriskjör almennra opinberra starfsmanna. Það er hins vegar jafnvel fleira sem má skoða í þessum gömlu lögum og ég vil minna á að það vakti t.d. talsverða gagnrýni í samfélaginu að fyrrverandi ráðherrar skyldu hefja töku lífeyris á sama tíma og þeir voru í öðru starfi. Þó að einhver skerðingarákvæði séu í lögunum gátu þeir þegið lífeyri skertan en samt verið í öðru starfi. Það er ýmislegt fleira sem ég tel að mætti skoða í þessum lögum. Við erum svo sannarlega tilbúin til að endurmeta þau. Ég held að þessi lög hafi í raun haft bæði mikil áhrif á virðingu Alþingis og hvernig við stöndum að kjaramálum okkar og líka tek ég undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, það skiptir máli að hafa samræmi í lífeyrisgreiðslum í samfélaginu og að um þær ríki sátt í samfélaginu. Ég held að það sé mikilvægt atriði.

Við fögnum þessu en ég velti fyrir mér því sem um þetta er sagt í stjórnarsáttmálanum, hvað fulltrúar hins stjórnarflokksins hafa um þetta mál að segja. Ég reikna með að þetta fái afar jákvæða meðferð af hálfu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og að við séum reiðubúin líka til að skoða fleiri atriði en þau sem eru lögð til í frumvarpinu. Ég held að þetta kalli í raun á heildarendurskoðun á þessum lögum sem samþykkt voru 2003.