135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:53]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Ég þakka Valgerði Bjarnadóttir og meðflutningsmönnum hennar fyrir að leggja fram þetta frumvarp því að það var vissulega tímabært að fram kæmi á Alþingi tillaga um breytingu á eftirlaunakjörum ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Ég vil óska henni til hamingju með jómfrúrræðuna, þetta er í annað skipti sem ég óska til hamingju með jómfrúrræðu og hygg að það eigi rétt á sér í þessu tilviki, og ég þakka henni fyrir ræðuna.

Ég lýsi því yfir að ég styð þetta frumvarp heils hugar og tel að með samþykki þess verði stigið skref til ákveðinna sátta milli þings og þjóðar, því að þegar helstu forráðamenn þjóðarinnar bjuggu til þau forréttindi og þau sérréttindi sem sköpuð voru með þessum sérstöku eftirlaunalögum voru rofin ákveðin grið á milli þings og þjóðar. Þessum sérkennilegu svokölluðu lífeyrisréttindum eða eftirlaunalögum var komið á í flýti í desembermánuði árið 2003 og því miður varð fátt um andsvör til að byrja með þó að það magnaðist eftir því sem leið á. Ég varð var við það í þjóðfélaginu hvernig reiðin magnaðist í garð þeirra sem skipaðir eru til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar fyrir það að skapa sjálfum sér algjör sérkjör. Það er kominn tími til að við afnemum þessi forréttindi.

Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að það hlýtur að vera verkefni okkar þingmanna að gera þær breytingar að koma á einu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, að við séum ekki með margfalt kerfi og mismunandi kerfi og mismunum fólki í ellinni. Við eigum að hafa eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði áðan að hafi verið forsendur fyrir því að samþykkja eftirlaunalögin á sínum tíma, árið 2003, séu þær forsendur brostnar núna. Það voru aldrei neinar forsendur fyrir því að samþykkja eftirlaunalögin á sínum tíma. Það eru engar forsendur brostnar vegna þess að með lögunum árið 2003 var verið að búa til og skapa sérkjör sem eru að mínu viti smánarblettur á Alþingi að hafa samþykkt.

Það hlýtur líka að koma til skoðunar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir benti á, hvort frumvarpið sem nú hefur verið lagt fram kalli ekki á heildarendurskoðun þeirra laga sem hér er um að ræða umfram þó þær mikilvægu breytingartillögur sem hér eru lagðar til. Ég hef velt því fyrir mér hvort lokaorðin í síðustu málsgrein 1. gr. frumvarpsins eigi ekki hreinlega að falla niður þar sem segir: Áunnin lífeyrisréttindi fram til þess tíma halda þó gildi sínu.

Það kann að vera að út frá lögfræðilegum sjónarmiðum, lagalegum sjónarmiðum, yrðu það talin réttindi sem menn hefðu áunnið sér og menn mundu hugsanlega fá ef þeir sæktu þau réttindi. Leyfum þeim að gera það. Spurningin er hvort einhverjir mundu vilja fara þá leið að sækja sérkjör sér til handa á grundvelli þeirra ólaga sem sett voru árið 2003 um sérstök eftirlaun fyrir ráðherra og hæstaréttardómara.