135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:30]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að hreyfa mjög mikilsverðu máli og koma af stað umræðu á þinginu um eftirlaun ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara og gera tillögu um breytingu á þeim lögum sem samþykkt voru 2003. Ég var þeirrar skoðunar þá og ég er enn að lögin frá 2003 hafi verið mikil mistök sem Alþingi gerði og mikilvægt sé að reyna að vinda ofan af því máli eins og hægt er.

Að þessu máli komu á sínum tíma þingmenn úr öllum flokkum. Ég hefði því talið mikilvægt að þingmenn úr öllum flokkum kæmu líka að því að vinda ofan af þessari lagasetningu og reyndu að finna leið til að koma á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings, eins og raunar er lagt til í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafði sérstaklega á orði að um nýjung væri að ræða í samstarfi stjórnarflokka, að annar flokkurinn, eins og hún orðaði það, flytji mál sem þetta án atbeina hins. Því er til að svara að um er að ræða mál sem fimm þingmenn Samfylkingarinnar flytja. Þeir leggja til að fara ákveðna leið í þessu tiltekna efni. Það er auðvitað hægt að fara ýmsar leiðir í þessu efni og þetta er kannski ekki sú eina sem er tiltæk. En þeir leggja þetta til, hreyfa með því málinu og koma því á skrið sem ég held að sé mjög mikilvægt. Ég tel að langbest væri ef allir flokkar gætu komið að málinu og sameiginleg niðurstaða næðist um hvernig menn vilja haga þessum málum þegar til framtíðar er litið.

Það kann vel að vera að það sé nýjung í samstarfi stjórnarflokka að þingmenn úr öðrum stjórnarflokknum leggi fram mál, sína sýn á tiltekið mál og leggi til tiltekna leið í því efni, en það er þá bara fagnaðarefni að mínu viti. Það er mikilvægt að þingmenn geti bent á leiðir sem þeir vilja fara og telja nauðsynlegar og mikilvægar og komið með sitt innlegg í málin þótt ekki séu endilega allir, jafnvel í flokki þeirra, sammála um leiðina, m.a. hjá samstarfsflokknum í þessu tilviki. Það er réttur þingmanna að koma fram með þingmál og hreyfa mikilvægri umræðu. Ef það er að mati hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur alger nýjung þá er það bara fagnaðarefni að svo skuli vera og að teknir hafi verið upp nýir starfshættir á þinginu.

Hér hefur fortíðin aðeins komið til umræðu. Sitt sýnist hverjum um það hvort láta eigi fortíðina liggja eins og hún er, eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Lagt er til að áunnin lífeyrisréttindi fram til 1. janúar 2008 haldi gildi sínu. Aðrir hafa bent á að ekki séu rök til þess að hafa það með þeim hætti og kannski ætti einmitt að skoða fortíðina, hvort þar þurfi að breyta einhverju og að ekki eigi algjörlega að slá striki yfir hana. Þetta er eitt af því sem ég held að sé mikilvægt að þingmenn úr öllum flokkum ræði, að þeir reyni að koma sér saman um hvernig best væri að taka á þeim málum sem snúa að fortíðinni.

Ég endurtek og ítreka að hér er verið að hreyfa mikilvægu máli. Með málinu er reynt að vinda ofan af ósanngjarnri og óréttlátri löggjöf sem samþykkt var á þingi árið 2003 með atbeina allra flokka, við skulum ekki gleyma því. Allir flokkar komu að þessu með einum eða öðrum hætti þótt ekki hefðu allir (Gripið fram í: Á byrjunarstigi.) Byrjunarstigi, gott og vel, höfum það þannig. Allir flokkar komu að málinu á byrjunarstigi þótt að það hafi alls ekki verið þannig að á lokasprettinum hafi allir fallist á málið. En það er mikilvægt að við reynum að ná samstöðu um hvernig við getum sem best undið ofan af þessum mistökum.