135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

afkoma og fjárhagur sveitarfélaga.

[15:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegi forseti. Er það virkilega þannig að hæstv. forsætisráðherra haldi að sveitarfélögin auki skuldir sínar að gamni sínu, bara út í loftið í tilgangsleysi? Er það ekki þannig að sveitarfélögin eru með lögbundna starfsemi og skyldur, standa undir mikilvægum þáttum velferðarkerfisins og stærsti útgjaldapóstur þeirra svo miklu munar eru laun? Það gengur nógu illa að manna þann rekstur, þannig að mér finnst hæstv. forsætisráðherra ekki auka virðingu sína með því að ræða þessi grafalvarlegu vandamál svona. Því miður skynja ég tóninn í málflutningi hæstv. forsætisráðherra þannig að hann standi að baki fjármálaráðherra í því að gefa sveitarfélögunum í landinu langt nef. Það þarf enginn að segja mér annað en ræða fjármálaráðherra í morgun hafi orðið fulltrúum sveitarfélaganna á fjármálaráðstefnunni mikil vonbrigði því þar er ekki í einu einasta tilviki gefin vísbending um, ekki lyft litla fingri í átt til þess að ríkið ætli að koma til móts við stöðu sveitarfélaganna. Og það er alveg furðulegt ef ríkisstjórnin ætlar að reyna að koma sér í gegnum þessa umræðu og halda málinu áfram á þessum nótum vegna þess að það verður að taka á þessu grafalvarlega vandamáli sem óviðunandi afkoma sveitarfélaganna í landinu er.