135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

162. mál
[17:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þetta mál og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum að sjálfsögðu leggja því lið. Það er sjálfsagt mál að grípa til aðgerða af þessu tagi og það má eiginlega frekar spyrja, úr því að menn fara að hreyfa þessu á annað borð, hvort ekki sé ástæða til að rýmka þetta meira en hér er lagt til því að í sjálfu sér er það ekki mikil breyting að fara úr 20 dögum samfellt í 30 daga í einni vinnslustöðvun og heildarfjöldinn úr 45 dögum á ári í 60 vinnudaga vegna þeirra gjörbreyttu aðstæðna sem blasa nú við og eru þegar farnar að segja til sín, m.a. í uppsögnum starfsfólks á nokkrum stöðum á landinu. Ef það hefði mátt verða til að draga úr líkum á slíku hefði, að mínu mati, mátt hafa rammann þarna rýmri ef eitthvað væri. Það er einnig álitamál hvort nokkur ástæða sé til að vera með tímabundna ráðstöfun, hvort hún megi ekki vera varanleg, henni er þá alltaf hægt að breyta. Mér finnst það lýsa fullmikilli bjartsýni ef menn trúa því virkilega að þetta muni ganga yfir á tveimur árum og menn komnir aftur til fyrra horfs og ekki þörf á þessu strax að tveimur árum liðnum.

Þessi svokallaða mótvægisaðgerð er ein af fáum, ég segi kannski ekki sú eina en sannarlega ein af fáum, sem virkilega hittir þá fyrir sem vandamálið brennur á. Hæstv. ríkisstjórn var nú einkar lagið í aðgerðum sínum að gleyma þeim sem sannarlega verða fyrir mestu áfalli af niðurskurði þorskveiða, þ.e. sjómönnum, fiskverkafólki og sjávarbyggðunum sem háðastar eru bolfiskveiðum. Hér er þetta á sínum stað og það er augljóst mál að skynsamlegt er að koma til stuðnings fiskvinnslunni að þessu leyti. Þetta fyrirkomulag hefur í öllum aðalatriðum gefist vel, þetta er verulegur hluti af því að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks, sem var algjörlega óviðunandi. Eins og ýmsir muna sjálfsagt, sem þekkja til sögunnar hér á árum áður, var alveg fáránlegt ástand lengi vel, hvernig fiskverkafólki var bara sparkað heim og það í besta falli sent á atvinnuleysisbætur í staðinn fyrir að tryggja því eitthvert lágmarksstarfsöryggi, sem þessi ákvæði á sínum tíma voru verulegur liður í.

Ég hefði haldið að ástæða gæti verið til að skoða — og af því að hæstv. ráðherra sem fer jafnframt með málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs, og undir hann hafa fallið þau verkefni sem á sinni tíð og sjálfsagt enn mundu verða kölluð átaksverkefni þegar þannig stendur á að atvinnuleysi gengur í garð á einhverju svæði, Atvinnuleysistryggingasjóður hefur komið að verkefnum þar sem menn hafa farið í tilteknar aðgerðir og ígildi launa, sem nemur upphæð atvinnuleysisbóta, hefur verið greitt inn í verkefnin kannski í hálft ár eða svo — ástæða gæti verið til að skoða þann möguleika í þessu tilviki að útfæra í kerfinu meiri sveigjanleika þannig að að einhverju leyti hefðu getað tvinnast saman greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs við svona aðstæður og einhvers konar samstarfsverkefni eða átaksverkefni sveitarfélaga og eftir atvikum viðkomandi fyrirtækja. Maður gæti hugsað sér að í einhverjum tilvikum væri það báðum aðilum hentugt að tengja saman möguleika fyrirtækjanna og sveitarfélaganna til þess að ráðast í umhverfistengd verkefni eða eitthvað þvíumlíkt í eða í kringum viðkomandi fyrirtæki og í staðinn fyrir að fá launin greidd heim vegna hráefnisleysis gætu menn verið á launum við einhver slík skilgreind átaksverkefni þannig að starfskraftar viðkomandi fólks nýttust á meðan, t.d. til þess að fegra umhverfi og taka til eða hvað það nú gæti verið. Ég tek því undir það sem hæstv. ráðherra sagði, að þetta þarf að skoða mjög vel og ég held að það væri ekkert að því t.d. að opna á möguleika á einhverjum slíkum sveigjanleika í þessu kerfi öllu saman.

Að mínu mati er mesta brotalöm svokallaðra mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar, og sú undarlegasta, sú sem ég verð að játa að ég varð mest forviða á, sú að ríkisstjórnin skyldi nánast ekki að neinu leyti ætla að skila fjármunum í gegnum það tæki sem augljóslega er nærtækast að nota við slíkar aðstæður og það eru sveitarfélögin. Ég náttúrlega botna ekkert í því að ríkið skyldi ekki setja miklu meiri fjármuni til ráðstöfunar í gegnum þann farveg sem eðlilegastur er, líka vegna þess að sveitarfélögin verða sannarlega fyrir miklu áfalli, þau sem hafa haft drjúgan hluta tekna sinna af útsvarstekjum tengdum umsvifum í sjávarútvegi. Þar er líka langskilvirkasta og nærtækasta tækið til þess að nota til að leggja fjármuni í verkefni sem geta auðveldað mönnum að vinna sig í gegnum þá erfiðleika sem samdráttur í sjávarútveginum veldur. Mér fyndist því að taka ætti upp viðræður við sveitarfélögin og Samtök fiskvinnslustöðva eftir atvikum um það t.d. hvort þríhliða samstarf þessara aðila og ríkisins gæti orðið veigameiri þáttur í því að takast á við þessi vandamál.