135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[17:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er þessu frumvarpi algerlega andvígur og tel að það væri afturför og uppáskrift á hugmyndafræði sem yrði ekki til farsældar í samfélagi okkar, haldi menn í átt að því að slá skjaldborg og leyndarhjúpi um skattgreiðslur manna og þar með um vaxandi misskiptingu í landinu. Á aðra hlið eru ofurlaunin sem hafa mjög komist á dagskrá á síðustu árum og á hina hliðina undanbrögð frá því að menn greiði samfélaginu eðlilega.

Birting skattskrárinnar, fyrir utan að vera almennar upplýsingar sem að mínu mati eiga fullt erindi fram í dagsljósið í þjóðfélagi þar sem menn vilja almennt byggja á gagnsæi og upplýsingum um mikilvægustu þjóðhagsstærðir og hluti, þjónar líka verulegu aðhaldshlutverki og er innlegg í hina almennu umræðu um málin. Hún er nauðsynlegt gagn á hverju ári til að átta sig á því hvernig launakjör þróast, hvernig launamunur þróast og hvernig til tekst við að dreifa skattbyrðunum sanngjarnlega með tilliti til getu manna til að standa undir þeim.

Það sem vekur ekki síður athygli þegar þessar upplýsingar koma fram á hverju ári eru þeir efnamenn, auðmenn og hátekjumenn sem koma sér hjá því að greiða til samfélagsins og borga það sem einu sinni var kallað vinnukonuútsvar, þrátt fyrir að það blasi við að þeir hafi mikla fjármuni handa á milli og berist mikið á. Það að gerast málsvari leyndarinnar í þessu tilviki, undir einhverjum frelsisformerkjum, er að mínu viti að snúa hlutunum á haus.

Hvert ber sú röksemdafærsla okkur ef við látum ekki staðar numið við þetta atriði, birtingu álagningar? Geta menn ekki með sömu rökum hjólað í það að almennir kjarasamningar, félagslegir kjarasamningar, séu óverjandi vegna þess að í því sé fólgin frelsisskerðing því að af þeim megi ráða nokkurn veginn hvaða laun menn fá, ef þeir taka laun samkvæmt almennum kjarasamningum?

Ég held að þegar málsfrummælandi kveinkar sér sérstaklega undan fréttaflutningi sem reglulega er í tengslum við framlagningu skattskrárinnar þá séu það bestu meðmælin með því að breyta þessu ekki. Um hvað er sá fréttaflutningur? Jú, hann er um það sem stingur í augun, um hvort launamunurinn er að vaxa, hvort fámennir hópar í krafti aðstöðu sinnar sópa til sín óheyrilegum fjármunum og borga jafnvel ekki einu sinni eðlilega skatta til samfélagsins af þeim. Það eru einmitt upplýsingar sem við þurfum að hafa eða hvernig ætlum við að sinna okkar skyldum sem löggjafi og þeir sem leggja línur um skattalög og annað því um líkt ef menn keppast við að halda grundvallarupplýsingum um þessa hluti leyndum?

Ég held að þetta sé gamalt bergmál frá frjálshyggjutímunum þegar það var í tísku og þótti fínt að ganga fram undir þessum formerkjum. Ég held að tíðarandinn sé sem betur fer verulega breyttur, ekki síður í þessu máli en t.d. hugsjónamálinu mikla að koma brennivíni sem allra víðast í búðir. Ég yrði ekki hissa á því þó að (Gripið fram í.) þeir stjórnmálamenn sem hafa inni á þingi og þó alveg sérstaklega kannski í ákveðnum ónefndum ungliðasamtökum stjórnmálahreyfingar í landinu átt þetta sem sérstakt hugarfóstur, að koma þessum upplýsingum undir teppið, ættu eftir að reka sig á að einnig að þessu leyti eru þeir komnir úr tísku, á skjön við tíðarandann. Ég held að það sé miklu fleira sem mæli með gagnsæi og upplýsingagjöf í þessum efnum en á móti henni.

Ég held að færa megi fyrir því viss rök að flutningsmenn séu beinlínis á móti sjálfum sér, þ.e. á móti stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem þeir þó styðja. Ef maður skoðar stjórnarsáttmálann er þar m.a. fjallað um jafnréttismál. Þar er hugmyndafræðin um upplýsingagjöf og gagnsæi og að berjast eigi gegn kynbundnum launamun með því að tryggja launafólki rétt til að skýra frá kjörum sínum, ekki með því að halda þeim leyndum. Þar er ekki stóra mannréttindamálið að fara eigi leynt með þetta, að menn eigi að geta borist á og ekkert megi fjalla um það í samfélaginu.

Sú var tíðin að þeir sem báru þyngstu byrðarnar eða greiddu myndarlegast til samneyslunnar voru stoltir af því. Ágætir hægri menn töldu sér til tekna að þeir kæmust svo vel af að vera myndarlegir skattgreiðendur. Þorvaldur í Síld og fisk tók því ævinlega með brosi á vör að vera skattakóngur Íslands, sagðist stoltur af því að honum vegnaði vel og væri ánægður með að greiða sitt til samfélagsins og vera í aðstöðu til þess. Það er hugarfar sem mér líkar. Það eru heiðarlegir íhaldsmenn, góðir hægri menn sem taka þannig á málunum. (Gripið fram í.) Já, það er allt í lagi, enda borgi þeir þá sitt til samneyslunnar og vinni fyrir því á heiðarlegan hátt eins og hann gerði.

Ég tók eftir því að næstríkasti maður Bandaríkjanna, Warren Buffett, kvartaði undan því um daginn að hann borgaði ekki nóga skatta. Honum fannst það ósanngjarnt að hann, langtekjuhæsti maðurinn í sínu fyrirtæki, borgaði lægri skatta en allir aðrir starfsmenn. Hann borgaði að meðaltali 17% af sínum tekjum á meðan aðrir borguðu 21 eða 22% að meðaltali af lægri launum. Er það þessi veruleiki sem flutningsmönnum er svona mikið í mun að fela, að tekjuhæstu einstaklingarnir borga oft og tíðum lægstu skattana? Er það leyndarmálið sem verður að varðveita eins og ríkisleyndarmál undir misskildum frelsisformerkjum? Ég held að menn séu ekki á réttri leið í þessu.

Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að vænlegustu leiðirnar t.d. í að glíma við svonefndan kynbundinn launamun séu upplýsingar, þ.e. gagnsæi. Þá er hægt að taka á þeim en ekki ef þeir eru lokaðir og læstir inni. Ég vona að menn leggi það ekki út á hinn versta veg en ég fæ það á tilfinninguna að þetta sé liður í viðleitni til þess að komast undan umræðum um afleiðingar frjálshyggjusamfélagsins, að það þoli ekki dagsljósið. Samfélagsbreytingarnar sem hinn óhefti græðgiskapítalismi nýfrjálshyggjunnar hefur í för með sér eru svo óþægilegar að menn vilja ekki horfast í augu við þær. Menn vilja ekki að vaxandi launamunur og forréttindastéttirnar ofurríku séu uppi á borðinu, a.m.k. hvað þær taka til sín, að þær geti skammtað sér ofurlaun og valsað með þau og leikið sér, jafnvel án þess að borga af þeim skatta. Þeir vilja vera í felum, í skjóli.

Ég held að það sé grundvallarmisskilningur að leggja þessa hluti, álagningu opinberra gjalda, að jöfnu við heilsufarsupplýsingar. Ég held að það sé grundvallarmisskilningur og ég mótmæli þeirri samlíkingu. Ég tel að röksemdafærslan hér áðan hrynji um sjálfa sig þegar betur er að gáð. Frelsi einstaklinganna stafar í dag miklu meiri hætta af öðrum hlutum. Vilji frjálshyggjumenn virkilega ganga í lið með öllum þeim sem er annt um frelsi fólks og friðhelgi einkalífs eiga þeir að beita sér þar sem þörfin er knýjandi. Hún er m.a. sú að halda aftur af viðleitni stjórnvalda, víða á byggðu bóli, til að stórauka upplýsingasöfnun, leynilega upplýsingasöfnun, vöktun og hlerun á borgurunum, iðulega í skjóli þess að menn séu að berjast gegn hryðjuverkum eða allsherjarreglu stafi ógn af. Þar sé ég hættu. Um það fjalla margir núna á vettvangi mannréttindaumræðu á þessum missirum bæði hér og erlendis. Þar þurfum við virkilega að gá að okkur.

Við ættum kannski frekar að ræða um atburði liðinnar helgar. Er það endilega þannig að við séum með allt okkar á þurru í sambandi við ráðstafanir sem gripið var til um daginn, hvað segir hv. málshefjandi um það? Er það svolítið á gráu svæði að meina ferðamönnum komu til landsins og loka landamærunum á grundvelli upplýsinga um félagsaðild utan að frá og að þar séu allir settir undir sama hatt hvort sem þeir eru með hreina sakaskrá eða ekki? Ég veit það ekki. Menn segja að þetta sé annað dæmi en Falun Gong á sínum tíma. Ég veit það ekki.

Við horfum upp á miklu nærtækari hættur sem við ættum að horfast í augu við fremur en að þar standi stóra víglínan í frelsisbaráttunni í dag, að það megi ekki birta skattskrána. Mér finnst það kostulegur málflutningur satt best að segja.

Hvað sem líður umræðunni um það að menn eigi að hafa eftirlit hver með öðrum má benda á að íslensk skattayfirvöld gera lítið af því sem víða erlendis er stór hluti af aðhalds- og eftirlitshlutverki skattyfirvalda, að bera saman sýnileg lífskjör fólks, hvernig það berst á í samfélaginu og því sem það gefur upp sem tekjur og borgar í skatta. Í Bretlandi er öflug sérdeild innan skattsins sem hefur það eina hlutverk að fylgjast með því hvernig menn berast á, hversu dýra og fína bíla þeir eiga, í hversu stórum og fínum villum þeir búa og hinu, hvort menn geri grein fyrir því í skattframtali árlega hvaðan tekjurnar koma. Ef svo er ekki eru þeir krafðir um upplýsingar. Þess konar eftirlit er viðurkenndur hluti af skattaframkvæmd víða í löndunum í kringum okkur en er nánast ekki til hér þar sem menn hafa því miður horft upp á það árum og áratugum saman að tilteknir einstaklingar berist gríðarlega á, hafi mikla fjármuni handa í milli, geti látið eftir sér gríðarlega einkaneyslu en á skattframtalinu eru þeir tekjulausir. Hvaðan koma þá peningarnir? Af himnum? Er ekki ástæða til þess að athuga slík mál?

Er það frelsi sem við viljum standa vörð um sem er á kostnað almennings og almannahagsmuna í þágu einhverra örfárra, eins og það auðvitað er ef þeir sem best eiga með að inna af hendi greiðslur til samfélagsins gera það ekki? Það verður á kostnað þess aðrir verða að borga meira eða að velferðarþjónustan er skorin niður. Á þessu eru ýmsar hliðar sem snúa að frelsi og mannréttindum, almannahagsmunum og sérhagsmunum einhverra fárra sem mér finnst frumvarpið fyrst og fremst slá skjaldborg um. Ég tel það þess vegna ekki bara óþarft heldur yrði það tvímælalaust afturför ef þetta yrði lögtekið.

Ég held að við þurfum þvert á móti að auka gagnsæi í launa- og lífskjaramálum og hafa staðgóðar upplýsingar á að byggja. Við þurfum á öllu því aðhaldi að halda sem upplýsingarnar geta veitt, þar á meðal fjölmiðlaumfjöllun. Ég er ekki viðkvæmur fyrir því þótt auðmenn kveinki sér undan því að það komi fram í skattframtalinu hvað þeir borga í skatta eða öllu heldur hvað þeir borga ekki, sem eru e.t.v. þær upplýsingar sem eru mikilvægastar í þessu tilliti.