135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem er síaukin ásælni ríkisvaldsins inn á frelsi einstaklinga með baráttu gegn hryðjuverkum að leiðarljósi. Ég hef stundum orðað það þannig að það virðist stundum sem glæpamennirnir stjórni heiminum með viðbrögðum stjórnvalda við hryðjuverkum þeirra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, hann sagði: Sumir berast mikið á og greiða bara vinnukonuútsvar — hefur hann kært viðkomandi til skattrannsóknarstjóra?

Önnur spurning mín til hv. þingmanns er eftirfarandi: Treystir hann ekki opinberum starfsmönnum skattrannsóknarstjóra til að sinna slíkum málum?