135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:07]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það liggur alveg kýrskýrt fyrir að hafnir á öllu landinu, nema í þéttbýlinu í Reykjavík og ef til vill aðrar stærri hafnir, standa afar illa. Um það hef ég fengið upplýsingar á ferðalögum mínum í Suðurkjördæmi í kosningabaráttunni í vor. Ferðir okkar hv. þingmanna Suðurkjördæmis um kjördæmið á kjördæmadögum þar sem við hittum fulltrúa allra sveitarstjórna í kjördæminu leiddu hið sama í ljós. Hafnirnar standa afar illa, svo illa að það stefnir í gjaldþrot hjá þeim flestum. Við heyrðum sömu umkvartanir frá Sandgerði, Reykjanesbæ, Grindavík, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði.

Á þessum fundum var hæstv. fjármálaráðherra. Hann fékk þessar upplýsingar beint í æð. Svo upplifir maður það á fundi sveitarstjórna um fjármál í gær að það á ekkert að gera í þessu máli frekar en öðrum verulegum fjárhagsvandamálum sveitarfélaganna sem ekki geta staðið undir þeim skuldbindingum sem lög áskilja og veitt íbúum sínum þá þjónustu sem þeir eiga lögbundinn rétt á.

Í Grindavík er staðan þannig, ef ég man rétt upplýsingar bæjarstjórans, að 50 millj. kr. taprekstur var á höfninni. Þetta er ein kvótastærsta sjávarbyggð landsins og það er deginum ljósara að reynslan af lögunum, þótt ég ætli ekki að fara að karpa um hversu góð og slæm þau voru eða hvort þetta var rétt eða röng lagasetning, er sú að þau eru ónýt.

Faxaflóahafnir standa uppi, ráða ferðinni og landsbyggðinni blæðir. Landsbyggðinni blæðir í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Landsbyggðin situr ekki við sama borð þrátt fyrir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þetta er bara eitt af mörgum slíkum dæmum. Tökum háhraðatengingar, tökum menntun, tökum farsíma, tökum samgöngumálin. Það er allur pakkinn. Landsbyggðin situr ekki við sama borð og við stöndum frammi fyrir þeirri grundvallarspurningu, eins og forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson benti á við þingsetningu: Viljum við að það sé byggð í landinu? Við stöndum frammi fyrir þeirri ákvörðun.

Við erum að tala um vel rekin sveitarfélög þar sem er ekki óráðsía í gangi, þar sem 100% af tekjum sveitarfélags fer í rekstur. Við erum að tala um sveitarfélög, t.d. Hrunamannahrepp og Bláskógabyggð sem hafa ekki efni á að sinna frumþörfum íbúa sinna. Þau geta ekki lagt vatnsveitur vegna þess að ríkisstjórnin er búin að skera framlög til vatnsveitna úr 50% í núll, fyrir þessar grunnþarfir. Það er deginum ljósara að breyta verður lögum um hafnir og það verður að gefa upp á nýtt. Þar er ég að horfa til framtíðar en ekki til fortíðar. Ég ítreka að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin skellir algerlega skollaeyrum við þessum stóra vanda hafnanna og vandamálum landsbyggðarinnar.

Eitt af því sem ræður stöðu hafnanna í dag er að á Íslandi voru lagðar niður strandsiglingar. Það voru lagðar óhemjufjárfestingar í þessar hafnir frá því að ég man eftir mér, byggðar hafnir og lagðir ótrúlegir fjármunir í þær sem eru víða ónýttar eða vannýttar. Það þarf að hugsa fyrir því hvernig hægt er að nýta þessa hafnaraðstöðu. Strandsiglingarnar voru eitt dæmi, þ.e. að leggja af strandsiglingar, um ranga hugsun. Hún gekk ekki eingöngu gegn hagsmunum hafnanna. Hún gekk líka gegn eðlilegri þróun í umhverfismálum, þ.e. vöruflutningar á sjó eru mun umhverfisvænni en landflutningar. Þar réð ekki samfélagsleg heildarhugsun, þegar strandsiglingar voru aflagðar, heldur þröng gróðahugsun ákveðinna einokunarfyrirtækja. Vegirnir þola ekki álagið og eru ekki byggðir fyrir þessa þungaflutninga. Hvaða vit er í því að keyra vörur alla leið frá Raufarhöfn til Reykjavíkur með þungaflutningabíl sem mætir svo öðrum sem flytur fisk til Raufarhafnar? Skipulagið á þessum málum er ekki til mikillar fyrirmyndar hjá okkur.

Ég tek undir þessa tillögu hv. þm. Bjarna Harðarsonar en ég er ekki sammála einum þætti í því að skipta mótvægisaðgerðafjármunum öðruvísi. Mótvægisaðgerðaféð er svo lítið að það er ekki til skiptanna. Það þarf að auka við féð. Það verra er að þorskaflaskerðingin skellur á af fullum þunga á yfirstandandi fiskveiðiári, 2007/2008. Mikið af þessum mótvægisaðgerðum eiga ekki að koma fyrr en á seinni árum, 2009–2011. Ég legg til að farið verði í stórfelldar mótvægisaðgerðirnar og þá horfi ég fyrst og fremst á grunnatriðið í þjónustu við landsbyggðina, það að landsbyggðin lifi, búi við jafnræði á við þéttbýlisstaðina á höfuðborgarsvæðinu. Það er skorið svo við nögl í þessum mótvægisaðgerðum að það er ekki af því takandi. Það eru ekki einu sinni lagðir fjármunir beint til þeirra sem mótvægisaðgerðirnar bitna helst á, þ.e. til sjómanna og fiskverkafólks. Með þeim athugasemdum og þessari ræðu tek ég þó undir góðan vilja hv. þm. Bjarna Harðarsonar.