135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:51]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég verð að biðja virðulegan forseta velvirðingar á því að ég misskildi það að hv. þm. Bjarni Harðarson væri í andsvari en ekki í ræðu og viðbrögð mín helguðust af því.

Hv. þm. Bjarni Harðarson sagði hér í ræðustóli að kvótakerfið kæmi stöðu hafnanna ekkert við, eða þannig skildi ég hv. þingmann, að það ætti ekki að draga kvótakerfið inn í umræðu um stöðu hafnanna. Ég er honum algjörlega ósammála. Það verður að skoða hvert mál heildstætt, hvert mál út frá heildarhagsmunum hafnanna og heildarhagsmunum landsbyggðarinnar og samfélagsins. Kvótakerfið hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur hafnanna í landinu, það er bara þannig. Með minnkandi afla og því að kvótakerfið hefur ekki uppfyllt markmið sín, þ.e. það hefur verið yfirlýst markmið kvótakerfisins að efla byggð í landinu, að auka atvinnu, að styrkja fiskstofnana við landið. Það hefur allt mistekist (Gripið fram í.) frá a til ö frá því að kvótakerfið var tekið upp.

Hvað þýðir það að kvótakerfið hafi mistekist? Það þýðir auðvitað að minni afli berst að landi. Það þýðir m.a. að botninn á Íslandsmiðum hefur verið eyðilagður með togveiðum, það er stórhætta varðandi uppeldisstöðvar og hrygningarsvæði. Það er stórhætta á því að landsbyggðinni blæði endanlega út vegna þessa kerfis og vegna fjölmargra annarra atriða sem síðustu 16 ríkisstjórnarár Sjálfstæðisflokksins hafa leitt yfir þjóðina. Það er ekkert öðruvísi.

Við verðum að skoða þetta mál heildstætt eins og önnur málefni landsbyggðarinnar en fara ekki frá einu tré til annars, skoða skóginn, horfa yfir, hafa heildarmynd út frá samfélagslegum hagsmunum og það eru samfélagslegir hagsmunir að hafnirnar standi blómlegar. Þær eru, eins og hv. þm. Árni Johnsen sagði, grunnæðar samfélags okkar. Ég er honum hjartanlega sammála.

Við skoðum stöðu hafnanna og landsbyggðarinnar í samhengi og heildstætt m.a. út frá því að tekjustofnar sveitarfélaga eru í rúst. Miklar skyldur hafa verið lagðar á sveitarfélögin til að mynda með EES-tilskipunum um eitt og annað, í frárennslismálum, sorpmálum, umhverfismálum og öðru slíku, mjög góðir málaflokkar sem ég styð heils hugar, en þessum skyldum sveitarfélaganna við umhverfi sitt hefur ekki verið fylgt eftir með tekjustofnum. Hins vegar er það lagaskylda að kostnaðarmeta frumvarp ef það kemur frá ríkisstjórninni. Nú er staðan þannig að ríkissjóður stendur öflugur meðan sveitarfélögunum blæðir og það er ekki hægt að annað stjórnsýslustigið standi jafnandvana í fjármálum og raunin er og geti ekki uppfyllt sínar skyldur. Þetta verður að skoða um leið og maður talar um hafnir, það verður líka að tala um þorskveiðistjórnarkerfið, það verður líka að tala um það að konur á landsbyggðinni eigi ekki kost á fjarnámi vegna háhraðatenginga. Allt þetta verður að skoða í samhengi. Hvert höggið á fætur öðru hefur dunið á landsbyggðinni og staða hafnanna er eitt sorgarmálið í því ferli öllu.