135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:41]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir eindreginn stuðning við málið. Það kemur mér ekki á óvart, ég vissi af afstöðu þingmannsins, hún hefur komið fram áður, m.a. í umræðu um þingsályktunartillöguna sem flutt var fyrir fjórum árum.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns, að stofnun háskóla í því umhverfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum á Ísafirði, með fjölgun stöðugilda í rannsóknum hjá ýmsum stofnunum, er ákaflega skynsamlegt skref. Háskólinn er miklu betur í stakk búinn til að taka til starfa eftir að þau störf hafa verið sett á fót á undanförnum árum og komið er til starfa fólk sem sinnir þeim og getur stutt við bakið á skólanum. Það mundi líka styðja við bakið á umræddum stofnunum eða útibúum, sem eru oft einyrkjabúskapur, að verða hluti af háskólanum, annaðhvort renna inn í hann eða vera í samstarfi við hann með sameiginlegum rekstri og með samstarfssamningi. Ég hugsa að báðir aðilar mundu njóta góðs af þeirri breytingu sem hv. þingmaður stakk upp á að yrði gerð.

Ég held að þessi ábending þingmannsins styrki málið. Það er með þennan skóla eins og aðra að þeir sem koma til með að leiða skólann, vera í forsvari fyrir hann, eiga að ráða ferðinni og móta framtíðina fyrir skólann. Það er ekki okkar að stafa það ofan í menn langt fram í tímann, við getum ekki séð það fyrir og eigum ekki að vera að reyna það. Mér sýnist þó að skóli þarna fyrir vestan mundi sérhæfa sig á sjávarútvegssviði og umhverfissviði.