135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:12]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að mál þetta var flutt fyrir fjórum árum og sett hér fram sem nánast nýmæli í pólitíska umræðu í menntamálum á þeim tíma. Þá þegar var töluverður stuðningur við málið heima í héraði og reyndar víðar. Hann hefur vaxið með árunum og þess vegna er ég tiltölulega bjartsýnn um framgang málsins því að ég þykist sjá að stuðningurinn sé orðinn það mikill og hafi aukist það mikið á þessum fjórum árum að það séu góðar líkur á því að málið muni ná fram að ganga. Það er auðvitað ekki öruggt fyrr en það er í höfn og auðvitað hafa fulltrúar annarra sjónarmiða beitt sér gegn þessu máli og við þau sjónarmið þarf að glíma. Við stjórnmálamennirnir þurfum að hlusta á þau sjónarmið, sem ég hygg að komi fyrst og fremst úr háskólasamfélaginu á höfuðborgarsvæðinu, og fara yfir þau rök sem þar er að finna og vega það og meta á móti málinu að öðru leyti sem hefur verið ágætlega rakið í ræðum í þessari umræðu hver ávinningurinn er bæði þjóðhagslega og á einstökum svæðum.

Ég treysti því að menn komist að þeirri niðurstöðu og ríkisstjórnin líka að það séu meiri hagsmunir í að fara þessa leið en ekki. Þess vegna er ég nokkuð bjartsýnn á að mál þetta muni ná fram að ganga á næstu árum, skulum við segja, það mun kannski verða gert í einhverjum áföngum en ég er sæmilega bjartsýnn á að næstu árum málið fái þann framgang sem við óskum eftir.