135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

atvinnuleyfi fyrir erlenda sérfræðinga.

135. mál
[14:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn á við um háskólamenntaða sérfræðinga frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Förin er frjáls fyrir þá innan þess eins og hv. þingmenn þekkja.

Ég tel sjálfsagt að við eigum að hafa þá stefnu að opna leyfi fyrir erlent vinnuafl inn í landið, og út úr því, miklu meira en við höfum gert. Mér finnst það óþarfi og þröngsýni að takmarka okkur við Evrópusambandið, búa til múra utan um það og skilgreina launafólk eftir búsetu en ekki hæfni eða verkkunnáttu sem við þurfum á að halda hér á landi.

Til landsins hefur flust fólk frá öðrum löndum utan Evrópusambandsins í umtalsverðum mæli, eins og frá Filippseyjum, Taílandi og Suður-Afríku, sem hefur reynst góðir þegnar og mér finnst alveg óþarfi að gera fólki erfitt fyrir að flytja hingað frá þessum (Forseti hringir.) löndum.