135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stytting vinnutíma.

151. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir málefnaleg og góð svör. Að sjálfsögðu drottnar ríkið ekki yfir aðilum vinnumarkaðarins. Hins vegar getur ríkið beitt sér á þeim samráðsvettvangi sem hæstv. ráðherra nefndi hér fyrir því að viðhorfin verði önnur. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra ætlar að beita sér í þessum efnum.

Það er ekki ásættanlegt fyrir ríkustu þjóð í heimi að við skulum vinna allt að 45 klukkustundum lengri vinnumánuð en þær þjóðir sem ég nefndi áðan og eru innan Evrópusambandsins. 45 klukkustunda lengri vinnumánuður en 12 þjóðir í Evrópusambandinu er því miður ekki ásættanlegt og hlýtur að koma niður á samverustundum og velferð fjölskyldunnar. Hæstv. ráðherra er ráðherra fjölskyldumála, hefur gefið sig út fyrir það, og ég fagna því sérstaklega að hún ætli að skoða þessi mál nánar.

Ég held að hér sé um langtímamarkmið að ræða. Þetta er ekki eitthvað sem við breytum í einu vetfangi en við þurfum að hefja umræðuna um þessi mál, hefja hana innan sala Alþingis og almennt í samfélaginu. Ég ítreka enn og aftur þakkir mínar til hæstv. ráðherra. Við erum ekki alltaf sammála í þingsölum eins og margir þekkja en í þessu máli erum við hjartanlega sammála. Hér er um mikilvægt markmið að ræða sem við þurfum að ná í gegn í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.