135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

157. mál
[15:00]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því á hinu háa Alþingi. Rætt hefur verið um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem eina af mótvægisaðgerðum núverandi ríkisstjórnar. Þar vil ég, hæstv. forseti, segja að menn séu að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Það var einlægur ásetningur fyrri ríkisstjórnar og ríkur áhugi á því að koma að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Hæstv. ráðherra tilkynnti í aðdraganda kosninga að ákvörðun ríkisstjórnarinnar lægi fyrir. Hér er því ekki um að ræða ákvörðun núverandi ríkisstjórnar heldur fyrri ríkisstjórnar. Samfylkingarmenn skulu hafa sig hæga í því að tala um að um verulegar mótvægisaðgerðir sé að ræða, einungis er verið að endurnýja gamalt loforð.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að mjög mikilvægt sé að hefjast handa sem fyrst við að reisa glæsilega viðbyggingu utan um hið glæsilega skólastarf í ljósi þess hversu (Forseti hringir.) stuttur tími er til stefnu. Ný starfsemi verður að geta hafist í nýju og glæsilegu húsnæði.