135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.

132. mál
[15:09]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort félagsmálaráðherra hyggist beita sér fyrir því að Alþingi lögfesti sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006.

Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér á dagskrá. Ísland undirritaði ásamt 80 öðrum ríkjum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun skömmu fyrir þinghlé þann 30. mars sl. Einnig var sama dag undirrituð af hálfu Íslands valfrjáls viðbótarbókun samningsins sem ekki var undirrituð af hálfu allra samningsaðila. Í henni felst að aðildarríki sáttmálans viðurkenni að einstaklingar eða hópar sem telja að aðildarríki hafi ekki uppfyllt sáttmálann geti sent kvartanir til sérstakrar nefndar sem starfar á grundvelli hans enda hafi kæruleiðir innan aðildarríkisins verið tæmdar.

Skilyrði þess að sáttmálinn öðlist gildi sem alþjóðasamningur er að 20 ríki hafi fullgilt hann. Í dag hafa einungis sjö ríki fullgilt sáttmálann. Ég vek athygli á því að þar á meðal er ekkert Norðurlandanna og fá Evrópuríki. Það á sér þá eðlilegu skýringu að yfirferð yfir sáttmálann í einstökum löndum tekur eðli máls samkvæmt nokkurn tíma þar sem margir þurfa að koma að til að tryggja sem vandaðasta innleiðingu. Forsenda fullgildingar sáttmálans hér á landi er að hlutaðeigandi ráðuneyti hafi farið ítarlega yfir lagaákvæði á mörgum sviðum sem hugsanlega kalla á lagabreytingar. Félagsmálaráðuneytið mun stýra þeirri vinnu með aðkomu ráðuneyta og hagsmunasamtaka hér á landi og ég hef falið hv. þm. Helga Hjörvar að stýra þeirri vinnu fyrir mína hönd.

Þetta er umfangsmikið verkefni sem ég vil að menn vandi til og ég vil að hagsmunasamtök komi að þessari vinnu með okkur. Þau ráðuneyti sem sáttmálinn varðar einkum eru auk félagsmálaráðuneytisins utanríkisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Félagsmálaráðuneytið mun, eins og ég sagði áður, stýra þeirri vinnu sem fram undan er við yfirferð yfir sáttmálann.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt hafa alþjóðasamningar sem Ísland gerist aðili að í undantekningartilvikum verið lagðir fyrir Alþingi og lögteknir í heild sinni. Mannréttindasáttmáli Evrópu er dæmi um það. Meginreglan er sú að farið er ítarlega yfir gildandi lög og reglur á þeim sviðum sem viðkomandi alþjóðasamningur eða sáttmáli varðar og innleiðing á sér stað með þeim glögga hætti. Ég vil hins vegar ekki útiloka neitt og mun taka afstöðu til forms innleiðingar þegar ég hef fengið í hendur ítarlega greiningu á áhrifum samningsins. Ég legg áherslu á að við fylgjumst m.a. með þeim skrefum sem Norðurlöndin stíga í innleiðingunni en þau standa mjög framarlega á heimsvísu varðandi þjónustu við fatlaða. Við eigum að miða okkur við þá bestu. Ég tel að við Íslendingar eigum að stefna að því að vera meðal 20 fyrstu þjóða sem fullgilda sáttmálann þannig að hann öðlist gildi í þeim 118 ríkjum sem hafa undirritað hann.

Ég vil loks geta þess að bæði samningurinn og valfrjálsa bókunin við hann eru aðgengileg almenningi í íslenskri þýðingu á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins. Ég hvet hv. þingmenn og almenning til þess að kynna sér þennan mikilvæga samning.