135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:48]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mikilvægt mál sem snertir alla landsmenn á einn eða annan hátt. Við erum að berjast við að halda uppi sérstakri stefnu í efnahags- og gengismálum á frjálsum innri markaði Evrópu þar sem fjármagn, vara, þjónusta og fólk flæðir frjálst. Ég held því fram að enginn leggi til að við förum aftur í gamla farið þar sem stjórnvöld ákveða bæði vexti og gengi íslensku krónunnar og ég mótmæli því sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hann ýjaði að því að formaður Framsóknarflokksins væri að leggja það til, það er ekki rétt.

Spurningin sem liggur í loftinu er náttúrlega þessi: Getur þetta tvennt farið saman, þetta mikla frelsi á markaði og sjálfstæð stefna í peninga- og gengismálum í minnsta hagkerfi í heimi? Við þetta bætist að við Íslendingar erum háðari útflutningi en flestar aðrar þjóðir.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin muni vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um aðgerðir, m.a. á sviði efnahagsmála, þannig að ég held að það sé fullt tilefni til þess að a.m.k. þessari spurningu verði svarað og ýmsum öðrum sem koma upp í þessari umræðu.

Það sem skiptir máli núna er að ríkisstjórnin fari yfir það hvort hún hefur möguleika í tengslum við samkomulagið við Seðlabankann eða jafnvel lögin um Seðlabankann til að grípa á málum til skemmri tíma vegna þess að það ástand sem núna ríkir, sérstaklega gagnvart útflutningsatvinnuvegunum, er algjörlega óviðunandi.