135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:02]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að ferlið í umsókninni og aðild okkar Íslendinga að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafi verið til mikillar fyrirmyndar og þar hafi frábært fólk, starfsmenn utanríkisþjónustunnar sem aðrir, lagt mikilvægt lóð á vogarskálarnar.

Að mínu mati átti hins vegar aldrei að leggja í þessa vegferð. Þetta snýst enn og aftur um forgangsröðun. Þetta snýst um forgangsröðun fjármuna, forgangsröðun þess sem við höfum raunverulega að gefa í alþjóðasamfélaginu, forgangsröðun þeirrar þekkingar og visku sem við höfum að miðla. Á þessu sviði finnst mér við einfaldlega ekki vera að forgangsraða rétt. Ef við Íslendingar getum ekki einu sinni verið til fyrirmyndar í loftslagsmálum er staða okkar því miður frekar aum á ýmsum öðrum sviðum.

Mig langar líka að benda hæstv. ráðherra og hv. þingmanni á eitt mjög athyglisvert atriði sem hefur komið í ljós í þessu ferli varðandi öryggisráðið. Hvað er það sem Afríkuþjóðirnar og fleiri lofsama Ísland fyrir? Jú, þau ala þá von í brjósti að við séum sjálfstæð rödd sem stendur utan bandalaga, utan Evrópusambandsins, utan þessara stóru fylkinga. Þar liggur styrkur okkar og við eigum að halda í það og um leið fara fram af ábyrgð í verkum sem raunverulega geta leitt okkur til góðs. Ég hefði frekar viljað sjá þessa fjármuni fara t.d. í jafnréttismál, í umhverfismál og í margt annað en einmitt þetta. (Forseti hringir.)