135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:06]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti athyglisvert að hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi landbúnaðinn sérstaklega. Hinar stóru alþjóðlegu stofnanir og stóru alþjóðlegu ríki svokölluðu hafa í áranna rás verið að reyna að knýja fátæk lönd, þróunarlönd, önnur ríki, til að opna alla sína markaði upp á gátt í landbúnaði á meðan þau síðan sjálf, stóru ríkin innan Evrópusambandsins, Bandaríkin og fleiri, loka öllu því sem þeim hentar. Þetta er eitt af því sem er að. Þetta er hræsni og tvískinnungur og þetta eigum við að gagnrýna af mætti. Við eigum ekki að fylkja okkur í lið með þeim löndum sem koma fram með þessum hætti heldur gagnrýna þau og hafa til þess sjálfstæða rödd.

Við erum augljóslega ósammála um aðild að öryggisráðinu. Ég segi einfaldlega: Hversu vel sem að því er staðið gætum við gert meira gagn með ýmsu öðru. Við eigum að sjálfsögðu eftir að sjá úrslit kosninganna, það verður spennandi að sjá. Ef við komumst þar inn vona ég svo sannarlega að við verðum réttmætir málsvarar hinna góðu gilda og raunverulegir málsvarar hinna fátæku og þeirra sem standa höllum fæti í heiminum.