135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:29]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi að ég gæti svarað þeirri spurningu hvort við gætum verið viss um að þær aðferðir sem verið er að beita núna virkuðu og hvort við getum fullvissað okkur öll um að þessu stríði muni ljúka með sigri góðu kallanna, en það get ég að sjálfsögðu ekki.

Varðandi aðferðafræðina sem hv. þingmaður nefndi um að sprengja fyrst og koma svo lýðræðinu á fót vil ég minna hv. þingmann á að engir haukar voru að sprengja í Afganistan, heldur voru það frekar, ef mig ekki misminnir, umræddir talibanar sem sáu um þær sprengingar. Það er rétt að halda því til haga.

Ég veit að í þessu erfiða máli eins og víða annars staðar skiptir úthald máli. Umræðan í alþjóðasamfélaginu og umræðan innan Atlantshafsbandalagsríkjanna fjallar mikið um efasemdir: Eigum við að fara eða eigum við að vera? Þetta er dýrt, þetta kostar mannslíf og auðvitað fyllist maður vonleysi þegar árangurinn lætur á sér standa. En ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að halda þessu verkefni áfram og að við verðum að sýna því stuðning vegna þess að markmiðið með þessu er mikilvægt, ekki bara fyrir Afganistan og þennan heimshluta heldur fyrir heiminn allan.