135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:46]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, og hefur gert góða grein fyrir efni frumvarpsins. Eins og kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra var mælt fyrir frumvarpinu á vorþingi. Það kom til afgreiðslu heilbrigðisnefndar og var afgreitt til 2. umr. úr þingnefnd. Komið var nálægt kosningum þegar það var gert en hins vegar undirrituðu allir þingmenn í heilbrigðisnefnd álitið, þar með talinn þingmaður Frjálslynda flokksins sem var áheyrnarfulltrúi á nefndarfundum þegar við afgreiddum málið. Það var hv. þm Valdimar Friðriksson. Hann lýsti því að hann væri samþykkur nefndaráliti heilbrigðisnefndar um frumvarpið og eins og kemur fram í áliti nefndarinnar. Fróðlegt væri að heyra nánar um afstöðu Frjálslynda flokksins núna, á hverju hún byggist, hver afstaða fulltrúa Frjálslynda flokksins er í þessari umræðu og í hverju sinnaskipti þeirra felast en í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan voru varfærnisorð. Þau eru vissulega fullkomlega réttlætanleg en ég vænti stuðnings Frjálslynda flokksins við að koma þessu frumvarpi í gegn.

Nefndin gerði ákveðnar breytingartillögur í vor sem hafa verið teknar inn í frumvarpið núna, að undanskilinni breytingartillögu sem snerti í sjálfu sér ekki efni frumvarpsins heldur tók til annarra ákvæða laganna. Síðasta vor spannst í heilbrigðisnefnd mikil umræða um rétt einstæðra kvenna og kvenna með sérstæða sjúkdóma til að fara í tæknifrjóvgun. Má segja að eftir að gerðar voru breytingar á þessum lögum fyrir nokkrum missirum í þá átt að lesbískar konur fengju rétt til að fara í tæknifrjóvgun standi eftir að konur sem eru einstæðar hafa ekki þennan rétt. Í því felst ákveðið ójafnræði sem nefndin taldi rétt að taka á og beindi því til löggjafans að taka þessi lög til endurskoðunar fyrir 1. janúar 2008. Þess var vænst að tekið yrði á þessu máli, eða eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin telur brýnt að lögin verði tekin til heildarendurskoðunar þar sem m.a. verði farið yfir ákvæði laganna um tæknifrjóvgun með tilliti til möguleika einstæðra kvenna og kvenna með sérstæða sjúkdóma til að gangast undir tæknifrjóvgunaraðgerð. Nefndin telur jafnframt nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laganna um eftirlit og skilyrði en fyrir liggja álitsgerðir sérfræðinga og skýrsla frá umboðsmanni barna sem styðjast mætti við í því skyni.“

Í greinargerð með frumvarpinu sem hér hefur verið mælt fyrir kemur fram að innan heilbrigðisráðuneytisins sé hafin vinna við endurskoðun á ákvæðum laganna hvað varðar tæknifrjóvgun og ákvæðum reglugerðar um tæknifrjóvgun þar sem þessi atriði verði tekin til skoðunar. Ég varpa þeirri spurningu fram til hæstv. heilbrigðisráðherra hvenær vænta megi að slíkt frumvarp komi fram, verði lagt fram á hinu háa Alþingi. Áhugi þeirra kvenna sem málið snertir á þessum breytingum hefur ekki farið fram hjá þingmönnum. Ég hygg að fleiri en ég hafi fengið símtöl þess efnis.

Um efni frumvarpsins vil ég annars segja að annars vegar er um að ræða heimild til að nota umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna. Hins vegar að í undantekningartilvikum sé heimilt að framkvæma kjarnaflutning, þ.e. einræktun í læknisfræðilegum tilgangi. Að baki þessum tillögum liggja siðfræðileg, læknisfræðileg og þekkingarfræðileg rök sem vel er gerð grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu.

Heimildir frumvarpsins leiða til þess að heimilt sé að ráðstafa umframfósturvísum, sem hafa orðið til í tengslum við glasafrjóvgunarmeðferð og geymdir hafa verið í allt að fimm ár og ætti samkvæmt reglum að farga, til rannsóknaraðila sem hafa fengið sérstakt leyfi til að nota umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna með samþykki beggja kynfrumugjafa og vísindasiðanefndar. Þó verður áfram óheimilt að framleiða fósturvísa gagngert í rannsóknarskyni hér eftir sem hingað til. Í því má eiginlega segja að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fái svar við spurningu sinni frá því áðan. Það verður ekki heimilt að framleiða fósturvísa sérstaklega til slíkra rannsókna heldur er eingöngu um umframfósturvísa að ræða. Haldi menn sig innan ramma laganna, sem ég geri ráð fyrir að rannsóknarstofur geri enda fái þær sérstaklega heimild til starfa, þá munu kaup og sala á umframfósturvísum ekki verða til staðar. Þetta verður ekki verslunarvara heldur er eingöngu um það að ræða að umframfósturvísar séu notaðir í þessum tilgangi.

Þá heimilar frumvarpið að framkvæma kjarnaflutning í undantekningartilvikum í þeim tilgangi að búa til stofnfrumulínu sem nýst geti til lækninga eða til að afla þekkingar á líf- og læknisfræði. Þetta verður eingöngu heimilt í þeim tilvikum er ekki er unnt að ná sama árangri eða afla sömu þekkingar með notkun stofnfrumulína sem búnar eru til úr umframfósturvísum eða með öðrum hætti. Þær leiðir sem hér hafa verið valdar eru varfærnislegar og hefur ekki verið gengið lengra en svo að tilgangi laganna verði náð.

Ég vil bæta því við að ég átti þess kost að fara á fund norrænna siðfræðinefnda í vor. Þar kom fram að sú leið sem við höfum valið sé í samræmi við þær leiðir sem flest Norðurlönd hafa farið og eru með þeim varfærnari. Ekki er um það að ræða að við séum að fara fram úr öðrum heldur miklu nær þeim með breytingunum sem við erum að gera. Við verðum við hliðina á öðrum þjóðum sem vilja gera sig gildandi í læknisfræði og lífeðlisfræðilegum rannsóknum á þessu sviði.

Ég geri ráð fyrir að heilbrigðisnefndin fari ítarlega í öll sjónarmið varðandi þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér, ekki síst þar sem stór hluti heilbrigðisnefndanna er nýr en sú heilbrigðisnefnd sem var að störfum í vor fyrir kosningar fór mjög ítarlega í þetta. Ég tel fulla ástæðu til að gera það á ný.