135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:24]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu til neinna muna. Mig langar aðeins til að koma upp hér og lýsa í grundvallaratriðum stuðningi við þetta frumvarp sem hefur nú verið um nokkurt skeið í meðförum Alþingis.

Ég get líka tekið heils hugar undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Pétri Blöndal, um að það sé óskandi að heilbrigðisnefnd skoði allar þær athugasemdir sem koma fram um þessa hluti, þar á meðal auðvitað sérlega athugasemdir sem varða mögulega sölu á umframfósturvísum sem getur auðvitað ekki talist í anda þessa frumvarps sem hér liggur fyrir og kannski þarf að taka þar fastar á um allan vafa.

Ég tel að eins og gengið er frá þessu í frumvarpinu og gerð er grein fyrir því í greinargerð þá sé annars tekið á flestum vafaatriðum og legg áherslu á þau lögmál sem hér eru lögð fram í siðfræðilegum efnum, meðal annars á blaðsíðu 13 í greinargerðinni í umfjöllun um lögmál um meðalhóf þar sem segir að rannsóknaraðferðir með þessum hætti þurfi að vera nauðsynlegar til að ná settum markmiðum og engar aðrar ásættanlegri aðferðir séu tiltækar. Þetta er mjög mikilvægt, þ.e. að meðferð fósturvísa sé þá aðeins beitt að engin önnur leið sé til að ná þeim markmiðum sem fyrirhuguð eru.

Ég tel líka að það sé mikilvægt í þessum efnum að þingið taki með sjálfstæðum hætti mál þetta til skoðunar, ekki bara með því að samþykkja frumvarpið heldur líka í framhaldinu með reglulegu millibili vegna þess að þróun á þessu sviði er afar ör og við vitum ekki nákvæmlega hvar við verðum stödd eftir eitt ár eða tíu ár. Það getur vel verið að nú vanti einhverja þá varnagla sem seinna þurfa að vera í lögum vegna þess að okkur vanti hreinlega tæknilega þekkingu til að setja þá inn núna.

Þó að þessi umræða sé kannski ekki sú sem vekur hvað mestan pólitískan áhuga í þinginu í dag þá er hún mikilvæg. Það er mikilvægt að þingið komi að málum eins og þessum og ég tel mikilvægt að Alþingi hafi síðan frumkvæði um mjög reglubundna skoðun á þessum þáttum þannig að fylgst verði með því á hinu pólitíska sviði hvort farvegur þessara mála sé með þeim hætti sem siðferðislegar hugmyndir okkar, siðferðilegar, trúarlega eða heimspekilegar getum við sagt, geta fellt sig við.

Ég sagði fyrr að ég gæti tekið undir orð hv. þm. Péturs Blöndals. Ég get raunar tekið það fram að ég tekið undir flest það sem komið hefur fram í þessari umræðu. Ég set reyndar ákveðin spurningarmerki við þá hugmynd að einhleypir einstaklingar geti farið í tæknifrjóvgun, einhleypar konur, eins og staðan er nú í tæknimálum. Við gætum þá ekki útilokað að það væri þá eitthvað sem þá væri seinna meir mögulegt öllum einstaklingum. En ég hefði haldið að það væri eðlilegt að það væri áfram sú krafa gerð að það þurfi tvo til slíkra hluta. Að öðru leyti vil ég taka það fram að ég legg til að þingið samþykki þetta frumvarp.