135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hægt að taka undir það að meðferð okkar á fiski á seinni árum hafi batnað. Ég tel að mesti og besti hvatinn til þess hafi í raun og veru verið þegar við opnuðum ferskfiskmarkaði hér á landi, þegar menn fóru að sjá það að fisktegundir sem menn nenntu varla að hirða áður og fyrr og var nánast bara hent til hliðar í frystihúsunum vegna þess að það tók því ekki að fara að starta vinnslu á einhverjum 100 kílóum af kola eða 200 kílóum af sólkola eða einhverju slíku, menn fóru allt í einu að fá ofsaverð fyrir þessar tegundir, m.a. á fiskmörkuðunum, og það gerðist hér áður og fyrr í útflutningi og í siglingum. Við stunduðum oft veiðar af kappi og það þarf nú ekki skrapdagakerfi til þess, ég minni bara á mynd úr Vestmannaeyjum, hæstv. forseti, þar sem stórþorskur var úti um öll tún á vertíðunum milli 1950 og 1960, þannig að við getum farið langt aftur í tímann með það. Einnig má minna á að steinbítur var líka úti um öll tún á Vestfjörðum þegar mest fiskaðist þar af steinbít.

Það er því ekki beinlínis háð fiskveiðikerfunum, en hins vegar held ég að verðþróunin á undanförnum árum í sambandi við ferskfiskmarkaðina hafi sem betur fer sýnt okkur fram á að það var umgengnin og gæðin sem skiptu máli og það kom líka smátt og smátt í gegnum frystihúsin þegar menn fóru að vera meira beintengdir við markaðinn en þeir voru þegar allir treystu bara á símtalið við Sölumiðstöðina sem sæi algjörlega um allt sem hét sala á fiski.