135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

dreifing fjölpósts.

122. mál
[14:31]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda berst mikið magn af pappír inn á söfnunarstöðvar sveitarfélaga í grenndargáma. Með heimahirðu almenns heimilisúrgangs kemur mikið magn af óumbeðnum pósti, dagblöðum, fríblöðum og auglýsingabæklingum, og það magn hefur aukist um 76% á fjórum árum. Þetta er gríðarlega mikil aukning og þrír fjórðu hlutar þessa eru dagblöð að mér skilst. Þessi þróun hefur aukið sorpmagn án þess að það hafi skilað sér í betri flokkun sorps til endurvinnslu. Mér þykir það óviðunandi ástand.

Ég hef því ákveðið að láta skoða þetta mál heildstætt og þá um leið að líta til annars prentpappírs. Ég tel mikilvægt að auka ábyrgð þeirra sem framleiða og flytja inn blöð, tímarit og bækur þannig að þeir beri einhvern kostnað vegna meðhöndlunar þessara vara þegar þær eru orðnar að úrgangi. Skipaður verður starfshópur til að skoða stöðuna og skoða möguleika. Þetta snýst um það hvaða leiðir eigi að fara, hvort innleiða eigi svokallaða framleiðendaábyrgð, hvort setja eigi á einhvers konar úrvinnslugjald. En það þarf að taka á þessu heildstætt með tilliti til prentpappírs sem notaður er í dagblöð, tímarit, bæklinga og bækur. Ég ætla að biðja þennan starfshóp að skila tillögum til mín og vonandi gerist það í vetur.

Ég geri ráð fyrir að í þessum hópi eigi sæti, auk fulltrúa frá umhverfisráðuneyti, fulltrúar tilnefndir af félagasamtökum á sviði umhverfismála, frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Umhverfisstofnun og Úrvinnslusjóði. Eins og heyra má koma margir að þessari vinnu og eiga hagsmuna að gæta.

Af hálfu ráðuneytisins hafa viðræður átt sér stað um þessi mál við fulltrúa atvinnulífsins, sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs. Mikill vilji er fyrir því að taka á þessum málum og það hefur verið ánægjulegt að heyra. Vandinn er öllum ljós og mikill vilji er til þess að eiga við hann. Við þurfum að ná saman um aðferðirnar að markmiðinu, þ.e. að draga úr þessum blaðaúrgangi og því gífurlega magni sem kemur inn um lúgurnar heima hjá okkur. Einhvers staðar liggur kostnaðurinn í öllum þessum óumbeðna pósti og því óumbeðna pappírsfargani sem kemur inn um lúguna heima hjá okkur á hverjum degi.

Ég hef spurst fyrir um þá ákvörðun Íslandspósts, sem hv. fyrirspyrjandi gerði að umræðuefni, að hætta að dreifa þessum gulu miðum þar sem fólk gat afþakkað fjölpóst. Mér var tjáð að það hefði verið athugað í fyrirtækinu og jafnvel í viðkomandi ráðuneyti að fyrir því væri ekki nægileg lagastoð. Ég þekki það mál ekki en verð að viðurkenna að mín fyrstu viðbrögð voru þau að það væri ankannalegt ef í löggjöf þyrfti að vera stoð fyrir því að maður gæti afþakkað póst. En vonandi komumst við til botns í því.

Þetta er brýnt mál og varðar líka sveitarfélögin og sorphirðuna af því að því miður skilar ekki nógu stór hluti þessa blaðaúrgangs sér í endurvinnsluna heldur fer beint í hina venjulegu heimilistunnu. Það þarf að koma því þannig fyrir að ekki verði einungis reynt að minnka magnið sem inn um lúguna fer heldur verði fundin leið til að heimilin geti endurunnið það sem þó berst.