135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

fyrirkomulag umræðna um skýrslur.

[10:34]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti vekja athygli á því að umræður um skýrslur umboðsmanns og Ríkisendurskoðunar, 1. og 2. dagskrármálið, fara nú fram með nýju sniði. Með breytingum á þingsköpum voru tekin upp ákvæði í 23. og 25. gr. þingskapa þess efnis að allsherjarnefnd fjalli um skýrslu umboðsmanns áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skili áliti um hana, og eins sambærilegt ákvæði um að fjárlaganefnd fjalli um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar og skili áliti um hana. Það fellur því í hlut formanna og framsögumanna þessara nefnda að hefja framvegis umræður um skýrslurnar, en áður féll það í hlut forseta Alþingis.

Ég vil við þetta tækifæri, nú þegar þessi nýju ákvæði þingskapa koma fyrst til framkvæmda, láta í ljósi von mína um að þessi nýbreytni takist vel. Hugmyndin að baki breytingunni er sú að með þessu móti megi efla samvinnu þessara stofnana Alþingis við þingið og þingmenn almennt, bæði til þess að þingmenn séu sér betur meðvitaðir um störf þessara stofnana og að umboðsmaður og Ríkisendurskoðun eigi greiðari leið að þinginu og meiri bakstuðning, ef svo má segja, á Alþingi við þau mikilvægu störf sem fara fram á þeirra vegum.

Þannig sé ég fyrir mér að allsherjarnefnd þingsins gæti t.d. veitt umboðsmanni Alþingis stuðning við eftirfylgni hans með tilmælum sem hann sendir stjórnvöldum, varðandi ábendingar hans um meinbugi á lögum o.s.frv. Með sama hætti sé ég einnig að samstarf Ríkisendurskoðunar og nefnda Alþingis aukist, einkum auðvitað fjárlaganefndar, þannig að almennar skýrslur stofnunarinnar komi til umfjöllunar í nefndum þingsins og síðar, eftir athugun þeirra, til umræðu á Alþingi eftir því sem efni standa til.

Breytingar á störfum þingsins að þessu leyti kalla auðvitað á vandaðan undirbúning og góða vinnu þingmanna og embættismanna á vettvangi nefnda Alþingis. Sú vinna gefur hins vegar um leið tilefni til þess að þingmenn sjái nánar hvað betur megi fara við lagasetningu, í stjórnsýslunni og við framkvæmd fjárlaga.

Starf umboðsmanns Alþingis er mikilvægt. Það hefur sannast á þeim 20 árum sem liðin eru síðan embættið var stofnað. Starf Ríkisendurskoðunar er einnig og ekki síður mikilvægt og á að nýtast Alþingi og alþingismönnum í eftirlitsstörfum sem þinginu ber að annast gagnvart framkvæmdarvaldinu og snýr að meðferð fjármuna og er í samræmi við svo nefnda Lima-yfirlýsingu sem er hinn trausti hornsteinn vandaðrar ríkisendurskoðunar og var höfð að leiðarljósi þegar Alþingi samþykkti sín fyrstu lög um Ríkisendurskoðun.

Ég mun sem forseti Alþingis fylgjast með þeim umræðum sem nú fara fram og er tilbúinn til þátttöku í þeim eftir því sem tilefni gefst til um það sem snýr að Alþingi sem stofnun.