135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:10]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að fara lítillega yfir frumvarpið en aðallega frumvarpið sem ekki er komið fram. Hún hefur gert þingheimi grein fyrir hvað í vændum er á vorþingi og hvaða hugmyndir liggja þar að baki.

Í meginkafla ræðunnar fór hún yfir hugmyndafræðina sem boðuð er í bráðabirgðaákvæði um ríkisstofnun sem ekki hefur fengið heiti í frumvarpinu en hv. þingmaður kallaði innkaupastofnun heilbrigðisþjónustu.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort sú þjónusta sem hún vísaði til og þær aðferðir sem teknar voru upp, kratískar hugmyndir með bláu ívafi, bæði í Bretlandi og Svíþjóð, hafi í raun reynst eins vel og menn bundu vonir við í upphafi? Ég skil vel að hver einasta þjóð reyni að leita bestu leiða til að fá góða þjónustu fyrir sem minnst verð og að þjónustan sé veitt á því stigi sem hentar.

Það er spurning um ýmsa þætti, að hluta til um kúltúr, samstarfshæfni og hvata inni í ráðuneytum. Mikilvægt er að gott flæði sé á milli mismunandi ríkisstofnana og yfir til sveitarfélaganna. Stofnanir þurfa að hafa möguleika á þjónustu en nú höfum við hjúkrunarheimili sem ekki hafa getað tekið við sjúklingum sem liggja inni á Landspítalanum. (Forseti hringir.) Hefur hv. þingmaður fylgst með framvindu þessara mála og hvað kerfið kostar þegar upp er staðið?