135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

uppfylling ákvæða í kaupsamningi Símans.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðherra ákvað að verða við tilmælum þess aðila sem hv. þingmaður nefndi vegna þess að upp eru komnar óvenjulegar aðstæður hjá því fyrirtæki og því er veittur frestur til að hámarki þriggja mánaða til að uppfylla þau skilyrði sem sett voru hvað þetta varðar í kaupsamningi sem ég sem fjármálaráðherra undirritaði á sínum tíma. Markmiðið með því skilyrði var að tryggja að almenningur í landinu fengi möguleika á því að kaupa hluti í Símanum, allt að 30%, og það gerðist með tilteknum hætti innan tiltekins tímaramma.

Nú háttar þannig til að Síminn hyggur á fjárfestingar í Slóveníu og aðstæður eru þannig að það er erfitt fyrir viðkomandi fyrirtæki að leggja á borðið allar þær upplýsingar sem þarf að gera við skráningu á hlutabréfamarkaði núna fyrir þessi áramót. Ég tel það ekki skipta sköpum fyrir væntanlega hluthafa eða kaupendur í fyrirtækinu hvort þessi frestur er veittur eða ekki. Þvert á móti tel ég að það sé líklegra til að gera bréfin í Símanum að góðri markaðsvöru sem verslað verður með ef þessi frestur er veittur. Ég hafði aðstöðu til að kynna mér þetta mál áður en fjármálaráðherra tók sína afstöðu og stend að sjálfsögðu fyllilega að baki honum í því máli.