135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:45]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé hárrétt sem kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns, Kristins H. Gunnarssonar, að stjórnskipulega er gætt að lýðræðislegum sjónarmiðum varðandi afgreiðslu EES-gerða á Alþingi.

Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hér í dag, m.a. hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni, að mikilvægt sé að efla aðkomu Alþingis. Það snýst ekki um stjórnskipulegar breytingar, það snýst um breytt vinnubrögð sem fela í sér að þingið komi fyrr að málum og hafi áhrif á þau samningsmarkmið sem Íslendingar fara með inn í einstök mál sem eru til umræðu á sameiginlegum vettvangi Evrópusambandsins og ESB. Við hér í þinginu þurfum að hugleiða hvernig við getum fundið leiðir til þess að tryggja betri aðkomu þingsins að þeim málum.

Varðandi reynsluna af EES-samningnum tek ég undir sjónarmið sem komið hafa fram, sá samningur hefur reynst okkur afskaplega vel. Ég er líka þeirrar skoðunar að ekki hafi komið fram nein skýr merki um að samningurinn sé með einhverjum hætti hættur að þjóna okkur eða hafi úrelst. Auðvitað þurfum við að taka tillit til breytinga á ESB sem samningsaðila okkar í þessum málum. En hins vegar hefur EES-samningurinn reynst vel og ekki eru, að mínu mati, nein merki um að hann reynist ekki vel í framtíðinni.

Ég vil í lokin lýsa ánægju minni með að þessi umræða hefur öll snúist um það hvernig við megum efla og bæta EES-samninginn sem okkar leið til þess að eiga samskipti við Evrópusambandið. Ég er mjög ánægður með þá nálgun, hún er miklu gagnlegri en vangaveltur um það hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki.