135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:12]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það finna allir sem þurfa að borga af lánum sínum að hjá okkur er vaxtaokur. Verðbólgan er á fullri ferð og það er eignaupptaka hjá fólki, hjá almenningi. Þetta bitnar líka á fyrirtækjum og sveitarfélögum og það er ömurlegt að horfa upp á það að Seðlabankinn rær í vestur en ríkisstjórnin í austur þegar stefna þarf í sömu átt. Svo er ekki.

Hagfræðingar eins og Guðmundur Ólafsson og Þorvaldur Gylfason hafa bent á þessa stefnu ríkisstjórnarinnar og kalla nánast brandara hvernig farið er og efnahagskerfinu hjá okkur stjórnað í dag.

Það er auðvitað spurning hvað þarf að gera og hvernig eigi að bregðast við þessu. En það er ljóst að eitthvað verður að gera í alvörunni. Það er sjálfsagt að hugleiða hvort taka þurfi upp evru. Við hljótum að verða að hugsa um það þótt það sé langt í það og erfitt að gera það því að margt þarf að gera í samfélagi okkar áður en hægt verður að taka upp evru.

Ríkisstjórnin er að fara af stað með fjárlög sem eru u.þ.b. 20% aukning í útgjöldum miðað við síðasta ár. Það vantar leiguhúsnæði á markað fyrir ungt fólk. Það þarf að endurskoða verðtryggingu og húsnæðisvísitölu og hvort olía og bensín eigi að vera í vísitölu. Af því að það er mikið brask á þessum húsnæðisbyggingamarkaði þarf að skoða rækilega hvað er í gangi og við þurfum líka að tryggja að Íbúðalánasjóður verði áfram starfræktur (Forseti hringir.) og ýmislegt annað þurfum við líka að gera.