135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:24]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að húsnæðisstefnan væri komin í þrot. Af því tilefni er rétt að rifja upp að núverandi stefna var samþykkt á Alþingi árið 2004 með öllum greiddum atkvæðum. Ég man ekki betur en að allir stjórnmálaflokkar sem þá áttu sæti á Alþingi hefðu samþykkt þau lagafrumvörp sem þáverandi ríkisstjórn bar fram um breytingar á húsnæðislánakerfinu þar sem m.a. var tekið upp peningalánakerfi í stað húsbréfa og farið með lánshlutfallið upp í 90%. Menn geta því ekki rætt þetta mál á þeim forsendum að einhverjir flokkar sem þá beittu sér fyrir breytingunni hafi verið með stefnu sem hafi frá upphafi verið röng. Þá hefur öllum mistekist að sjá fyrir þróunina sem orðið hefur á síðustu þremur árum. Ég hygg að sú niðurstaða sé nær sanni.

Menn sáu ekki fyrir að samkeppnin á húsnæðislánamarkaðnum milli Íbúðalánasjóðs og viðskiptabankanna yrði svo óheiðarleg sem raun ber vitni af hálfu viðskiptabankanna, því að hún beindist ekki að því að útvega viðskiptavinum bankanna lán á sem bestum kjörum fyrir þá heldur til að nýta sér ágalla í lagasetningunni um Íbúðalánasjóð til að koma sjóðnum á kné með uppkaupum á lánum og reyna að gera sjóðinn í raun óstarfhæfan með mjög alvarlegri atlögu sem stóð yfir á árinu 2004 og fram á 2005.

Virðulegi forseti. Margt hefur farið aflaga en í aðalatriðum er það vaxandi kaupmáttur og mikil eftirspurn sem hefur hækkað verðið. Á síðasta ári var byggingarréttur seldur fyrir liðlega 10 milljarða kr. Það þýðir um 5–10 millj. kr. á hverja einustu íbúð sem leggjast ofan á byggingarkostnað sem húsnæðiskaupendur þurfa að borga.