135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:41]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa til ræðu minnar varðandi fjáraukalögin og fjárlögin við 1. umr. og jafnframt þess sem varaformaður fjárlaganefndar sagði varðandi heimildargreinar og verklag allt. Ég ítreka að fjárlaganefndin hefur sett niður starfshóp með aðkomu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þannig að ég vænti þess — eins og hv. þingmaður gerir gagnvart formanni og varaformanni — að við getum dregið allar upplýsingar og þekkingu úr hv. þm. Jóni Bjarnasyni inn í þessa vinnu, enda er ekki lagt upp með annað af okkar hálfu.

Ég ítreka að okkur er afar mikilvægt að tryggja sjálfstæði þingsins og eftirlitshlutverk þess, líkt eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég hef lýst því yfir í ræðu og riti að við viljum gera það og vilji er til þess innan fjárlaganefndar. Ég hef lagt upp með að allir séu hásetar á bátnum og enginn skipstjóri öðrum fremur þó að við séum með hv. þm. Guðjón Arnar innan borðs. Við náum vonandi öll sameiginlega til lands varðandi ýmsar breytingar sem við höfum rætt og lagt til.