135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:15]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svar hv. þingmanns við spurningu minni. Ég skal játa það að mér er ekki létt í sinni við þau skipti sem urðu hér í borgarstjórn Reykjavíkur í pólitísku tilliti og græt það ekki í sjálfu sér að sá meiri hluti hafi fallið. En ég græt það vissulega, og tel slæmt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera farinn úr meirihlutastöðu í Reykjavíkurborg.

Varðandi þau sjónarmið sem hér eru uppi þá hefði ég álitið að það kæmi alveg til greina að ríkið ætti möguleika á að selja Orkuveitu Reykjavíkur hlutinn ef óskað væri eftir því. Grundvallaratriði í þessum málum í mínum huga er það að þeir hlutir sem í orkufyrirtækjunum eru geti gengið kaupum og sölum. Ég vil ekki leggja hindranir í veg þess.

Ég tel hins vegar grundvallaratriði að forræðið um nýtingu þeirra auðlinda sem í jörðinni eru sé tryggt þannig að þær nýtist almenningi til hagsbóta. Ég vil ekki endilega setja hömlur á kaup á hlut upp að 20% í orkufyrirtæki. Ég held að það geti ekki verið stórhættulegt. Menn mega heldur ekki taka alla umræðuna um söluna á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og dæma allt ferlið út frá þeim mistökum sem þar hafa verið gerð. Í því verki öllu saman eru líka jákvæðir þættir.

Ég tel til hagsbóta að í verkefnum sem þessum þá geti verið um að ræða samstarf einkaaðila og opinberra aðila í því augnamiði að létta undir með fjármögnun verkefna, nýta nýja tækni o.s.frv. En menn hljóta að geta dregið lærdóm af þeim mistökum sem voru gerð við þetta svokallaða orkuveituævintýri og allt sem því tengist (Forseti hringir.) án þess að þurfa að leggja algjörar hömlur á öll viðskipti með hlut í orkufélögum.