135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:03]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít ekki þannig á að menn séu að fara í skollaleik eða lyppast niður. Fyrir liggur, og það skiptir mestu máli, að verið er að viðurkenna þann kostnað sem hefur fallið á Grímseyjarferjuna og reyna að ná utan um og ljúka því máli með einhverri sæmd. Vegagerðin leyfði sér á sínum tíma að vísa í ónotað eða óráðstafað fé. Ég ætla að treysta á að hún geti staðið við þá millifærslu, það er eðlilegt að á það reyni. Það á ekki að þurfa að tefja aðrar framkvæmdir enda hefur verið bætt vel í í sambandi við samgöngumál. Ég skal heita því að við stöndum saman um að ekki verði niðurskurður á einstökum þáttum hjá Vegagerðinni út af þessu sérstaklega.

Ég sé ekkert athugavert við þessa millifærslu, hún er uppi á borðinu og hún er gerð með skilmerkilegum hætti. Ég geri því enga athugasemd við hana. Ég hefði alveg getað samþykkt hina leiðina líka. Ég lít ekki þannig á að menn séu að lyppast niður eða hopa. Það er ekki verið að fela eitt né neitt, það er einfaldlega ekki þannig, enda engin ástæða til. Þetta var gert á síðasta kjörtímabili af fyrrverandi ríkisstjórn og menn hafa axlað ábyrgð sína og lagt mál á borðið. Vonandi fáum við skip sem siglir vel og gegnir þeim tilgangi sem því var ætlað, það er aðalmálið. Gríðarlegar upphæðir fóru í verkefnið með allt öðrum hætti en menn höfðu séð fyrir. Ég sé ekki að þessi aðgerð í fjáraukalögunum sé á verri veg, eða breyti nokkru þar um. Ég sé ekki heldur að þetta snúist um einhverja réttarstöðu mína eða annarra hv. þingmanna.