135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:28]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Það er hægt að svara henni játandi. Að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því, ég væri ekki sjálfri mér samkvæm ef ég gerði það ekki. Það veit að hv. þm. Jón Bjarnason og fleiri hv. þingmenn sem sitja í þessum sal og horfandi yfir salinn sé ég eina þrjá kollega mína í sveitarstjórnarstjórnmálum sem taka þátt í umræðunni og fylgjast með. Þó að maður setjist inn á Alþingi gleymir maður ekki uppruna sínum. Ég hef verið í sveitarstjórnarmálum í 13 ár og hef lengi talað fyrir því að taka þurfi fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga til gagngerrar endurskoðunar svo og fjárhag ýmissa sveitarfélaga, sérstaklega lítilla og mjög skuldsettra sveitarfélaga úti á landi.

Svarið er já við spurningu þingmannsins, að sjálfsögðu mun ég halda áfram að beita mér fyrir slíkum leiðréttingum hér eftir sem hingað til.