135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að forvarnamál séu til umræðu í þingsölum og ég veit að þingmenn Vinstri grænna hafa boðað slíka umræðu með hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það verði í næstu viku og er það mjög vel.

Eins og kemur fram hjá hv. þingmanni er vandinn stór. Ég held hins vegar að menn ættu líka að halda því til haga, vegna þess að það skiptir máli og ég vek athygli á því, að þetta mál er fyrsta málið sem ég tók upp sem ráðherra. Við erum frá fyrsta degi mínum í ráðuneytinu búin að vinna að svokölluðum forvarnamálum. Það vill svo til, sem er mjög ánægjulegt, að við Íslendingar höfum náð árangri sem meira en eftir er tekið, hann er hreinlega orðinn útflutningsvara. Við höfum gert það með skipulegum aðgerðum þar sem saman vinna rannsóknaraðilar, stefnumótandi aðilar, fjölskyldur, skólar og frjáls félagasamtök. Það hefur skilað sér í því að árangur okkar varðandi vímuefnanotkun í grunnskólum hefur farið úr 42% niður í 20% á 10 árum, þ.e. hvað varðar drykkju. Sömuleiðis hafa reykingar og notkun á hassi sem betur fer farið niður.

Stærsti einstaki vandinn sem við höfum verið að taka á núna — þetta er eilífðarmál og við megum aldrei sofna á verðinum — er að við erum að skoða sérstaklega framhaldsskólana. Sumarið milli grunnskóla og framhaldsskóla er mjög afdrifaríkt, það er mjög örlagaríkt sumar. Þá er aukningin á drykkju 105%, bara yfir sumarið. Þess vegna fórum ég og (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra í samvinnuverkefni með nemendafélögunum í framhaldsskólunum sem er einn liður í því að taka á þeim málum. Það er af mjög mörgu að taka og menn munu sjá (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) í ráðherratíð minni ýmsar aðgerðir sem m.a. verða kynntar hér í janúar.