135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:22]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég gleðst yfir orðum hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann talaði um það áðan að leggja ætti aukna áherslu á forvarnir í framhaldsskólum. Þar kreppir skórinn. Það er mjög ánægjulegt ef farið verður út í það.

Reyndar er þessi málaflokkur svo gríðarlega víðtækur að hann nær yfir öll svið samfélagsins eins og fram kom í máli eins hv. þingmanns. Þessi mál koma inn á svið fangelsismála, inn á svið heilbrigðismála, inn á svið menntamála og fjármála og svo mætti lengi telja, (Gripið fram í: Og trúmála.) og trúmála líka.

Við þurfum að velta því fyrir okkur hversu margir aðilar í samfélaginu eru að ræða þessa hluti, einn talar hér og hinn talar þar o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að koma þurfi á fót einhverju batteríi sem hefur heildarsýn yfir þennan málaflokk og yfirumsjón yfir honum. Við erum ekki einungis að tala um heilbrigðismál heldur líka félagsmál, fangelsismál, dómsmál, lögreglumál o.fl.

Við vitum að fangelsi Íslands eru full af fólki sem hefur lent í miklum vandræðum út af vímuefnaneyslu. Á bak við það eru mikil ógæfa og sorg eins og kom fram hér áðan. Það vitum við öll. Þegar fólk kemur síðan út úr fangelsunum eða út af meðferðarheimilum eða sjúkrahúsum þurfum við að geta búið betur að því en nú er gert. Það eru líka forvarnir. Þannig stuðlum við að því að fólk sem hefur verið í ógæfunni losni við hana og öðlist nýtt, heilbrigt og gleðilegt líf án alkóhóls, án eiturlyfja (Forseti hringir.) eða utanaðkomandi efna sem fólk tekur til að fá inn í sig gleði. Hún á að koma innan frá, (Forseti hringir.) gleðin.