135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:42]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er í sjálfu sér ekki hissa þótt hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson taki málið aftur upp í dag eins og hæstv. félagsmálaráðherra talaði í gær. Það úrræðaleysi sem þar kom fram var náttúrlega grafalvarlegt. Ég er þeirrar skoðunar að húsnæðiskerfið sé í sjálfu sér í nokkuð góðu lagi þó að vindar blási í samfélaginu sem ríkisstjórnin hefur ekki ráðið við og ætlar ekki að taka á.

Dagurinn í gær var alvarlegur fyrir Ísland og íslenska ríkisstjórn. Sá áfellisdómur sem var felldur yfir efnahagsstjórninni staðfestir það sem ég sagði síðast í fyrravor. (Gripið fram í: Efnahagsstjórnin reyndi að taka á þessu.) Það er hin nýja efnahagsstjórn sem gerir ekki neitt, það er sú efnahagsstjórn. Ég hef setið í ríkisstjórnum þar sem alltaf varð að vera að taka á til að ná snertilendingu. Það er verðbólgan sem er vandamálið og gríðarleg þensla og á húsnæðismarkaðnum er stærsta vandamálið það brask sem viðgengst og hvernig byggingarverktakar og bankar hafa komið inn á markaðinn, halda uppi og hækka húsnæðisverð. Lögmálin virka ekki og félagsmálaráðherra sagði í gær að húsnæðisverð hefði hækkað um 70%. Sveitarfélögin taka þátt í þessu braski. Unga fólkið verður því að byrja á því að kaupa sér lóðir fyrir 5–10 millj. kr., 15 eða 20, áður en það getur farið að byggja. Alvarlegir hlutir eru að gerast og sveitarfélög, ríkisstjórn og félagsmálaráðherra verða að setjast yfir þetta. Ég er þeirrar skoðunar að með samstilltu átaki sé hægt að stórlækka byggingarkostnað á Íslandi og það eigi að gera það. Þess vegna um 30%. (Forseti hringir.) Það eru maðkar í mysunni. Hér hafa mjög alvarlegir hlutir gerst á síðustu mánuðum (Forseti hringir.) og það þýðir ekki fyrir ríkisstjórnina, og allra síst fyrir hæstv. félagsmálaráðherra, að sofa við (Forseti hringir.) þær aðstæður.